18.6.2018 12:00

Sigurmynd frá Hrafnseyri – Edda í Borgarleikhúsi

Spenna ríkti á Hrafnseyri vegna vítaspyrnu í Moskvu og Snorra-Edda fékk nýtt líf í Borgarleikhúsinu.

Af þeim myndum sem birst hafa af viðbrögðum vegna leiks Íslands og Argentínu á HM í Moskvu laugardaginn 16. júní 2018 er sú sem hér birtist og tekin var af Hauki Sigurðssyni á Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar forseta.

Þar fóru fram hátíðarhöld þennan laugardag. Sr. Geir Waage prédikaði við messu og sagði síðan einnig frá æskuminningum sínum frá Hrafnseyri. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti hátíðarræðu. Að henni lokinni frumflutti Strokkvartettinn Siggi tónverkið Blakta eftir ísfirska tónskáldið Halldór Smárason.

35415003_825817894277867_820192767597608960_oHaukur Sigurðsson tók þessa mynd í tjaldi á Hrafnseyri laugardaginn 16. júní þegar gestir fylgdust með leik Íslands og Argentínu í Moskvu. Í fremstu röð frá vinstri eru Örnólfur Thorsson, forsetaritari, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands með dóttur sína og son, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Lísa Kristjánsdóttir, aðstoðarm. ráðherra, Einar Kr. Guðfinnsson, fyrrv. ráðherra, Vala Oddsdóttir. Í annarri röð er Strengjakvartettinn Siggi: Sigurður Bjarki Gunnarsson sellóleikari, Þórunn Ósk Marínósdóttir víóluleikari, Helga Þóra Björgvinsdóttir fiðluleikari, og Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari. Sá sem stendur er Ólafur Bjarni Halldórsson.

Á milli 13.00 og 15.00 gáfu gestir og heimamenn sér tíma til að horfa á leikinn í Moskvu á skjá sem komið hafði verið fyrir í tjaldi og þar var þessi mynd tekin. Eins og sjá má gerði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sér einnig ferð að Hrafnseyri en hún hafði flutt ræðu á ráðstefnu á Ísafirði. Einar Kristinn Guðfinnsson, sem sýnir sterkustu viðbrögðin á myndinni, er formaður hátíðarnefndar sem skipulagt hefur viðburði vegna 100 ára afmælis fullveldis Íslands í ár.

Þessi mynd er ómetanleg heimild um áhugann á leik Íslands og Argentínu og augnablikið sögulega þegar Hannes Þór markmaður varði vítaspyrnu Lionels Messis, stórstjörnu knattspyrnuheimsins.

Messi sætir gagnrýni fyrir frammistöðu sína en hann beinir spjótum sínum að íslenska landsliðinu og segir það ekki leika góðan fótbolta. Orð hans minna á það sem Ronaldo sagði eftir 1:1 leik Íslands og Portúgals á EM 2016. Þeir líta stórt á sig þessir karlar og vilja hafa völlinn fyrir sig!

*

Að kvöldi 17. júní var EDDA í uppsetningu Det Norske Teatret sýnd í Borgarleikhúsinu undir merkjum Listahátíðar í Reykjavík. Þar átti hlut að máli Robert Wilson sem „telst til áhrifamestu og framsæknustu leikhúslistamanna síðustu áratuga,“ segir í kynningu á verkinu á netinu og einnig: „Sýningar hans eru þekktar fyrir að vera mikið sjónarspil og unnar af tæknilegri nákvæmni sem fáir leika eftir [...] og óhætt er að segja að þessi sýning sé ólík öllu sem áður hefur sést á íslensku leiksviði.“

File-11_1529323018543Svona var sviðið í Borgarleikhúsinu áður en sýningin hófst á Eddu.

Leikskáldið Jon Fosse gerir leikgerðina að verkinu sem reist er á Eddu Snorra Sturlusonar en tónlistarstjórn er í höndum íslenska tónlistarmannsins Valgeirs Sigurðssonar. Frumsamin tónlist í verkinu er eftir systurnar í CocoRosie. Eistneska tónskáldið Arvo Pärt á einnig stóran hlut í sýningunni.

Allt var þetta einstaklega listilega gert og ekki undarlegt að sýningin fékk Hedduverðlaunin í Noregi sem leikhúsviðburður ársins 2017 og fyrir bestu leikmynd og búninga.

Hér er á ferðinni enn eitt stórvirkið reist á norræna menningararfinum sem varðveist hefur frá Snorra og þeim sem með honum voru í Reykholti í Borgarfirði. Framlag þeirra til heimsmenningarinnar verður aldrei metið til fulls.

Miðað við hve mikið var lagt í alla umgjörð verksins á sviði Borgarleikhússins er prentaða dagskráin um sýninguna undarlega lítilfjörleg og varla læsileg vegna þess hve letrið er óskýrt.