6.11.2017 21:01

Sigurður Ingi lætur til sín taka

Sigurður Ingi styrkti stöðu sína með þátttöku í þessum samtölum undir forystu Katrínar. Honum er mikils virði að sýna að annarra flokka menn vilji frekar ræða við sig og Framsóknarflokkinn en Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Miðflokkinn.

Þeir skilja ekki gangverk stjórnmálanna sem undrast að Framsóknarmenn hafi ekki viljað „breikka“ stjórnarmyndunarviðræður undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG, með því að bæta fimmta hjólinu, Viðreisn, við viðræðuhópinn.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gekk fram á þann veg sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að flokkar sem sækja fylgi sitt í kjördæmi utan höfuðborgarsvæðisins hafa ekki mikinn áhuga á samstarfi við hana. Málið er ekki flóknara en það.

Katrín Jakobsdóttir skilaði forseta Íslands umboðinu til stjórnarmyndunar í dag og forseti fór að tillögu hennar um að gefa „frjálsan tíma“ í viðræðunum áður en hann veitti næsta manni umboðið.

Bæði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir árétta í hvert sinn sem við þau er rætt að þau útiloki engan kost við stjórnarmyndun. Þetta ber að skýra á þann veg að þau útiloki ekki samstarf flokka sinna.

935465Þessi mynd birtist í Morgunblaðinu í janúar 2017 þegar Bjarni tók við lyklum af forsætisráðuneytinu af Sigurði Inga.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, var gestur í Kastljósi. Þar endurtók hann að viðræðurnar undir forystu Katrínar hefðu gengið „fínt“ en þegar þær dýpkuðu hefði komið í ljós að hópurinn sem Katrín leiddi hefði ekki haft burði til að takast á við þau viðfangsefni sem við blöstu. Hann minnti á að Framsóknarmenn hefðu lofað pólitískum stöðugleika. Lá ljóst fyrir að Sigurður Ingi taldi það markmið ekki nást í samstarfi við Pírata.

Sigurður Ingi sagði að það þyrfti mjög trausta, sterka og breiða stjórn frá hægri til vinstri til að takast á við komandi verkefni: uppbyggingu og kjarasamninga. Halda yrði á stjórn ríkisfjármála þannig að vinna mætti að uppbyggingu samhliða því sem eitthvað yrði sett til hliðar til að auðvelda gerð kjarasamninga á sama tíma og hagsveiflan væri á niðurleið.

Spurt var hvort Sigurður Ingi hefði ekki gert sér ljóst áður en stjórnarmyndunarviðræðurnar hófust að hann næði ekki markmiðum sínum um trausta stjórn með eins atkvæðis meirihluta á þingi. Jú, hann sagðist hafa áttað sig á því en samt hefði hann viljað láta á þennan fjögurra flokka kost til stjórnarmyndunar reyna.

Sigurður Ingi styrkti stöðu sína með þátttöku í þessum samtölum undir forystu Katrínar. Honum er mikils virði að sýna að annarra flokka menn vilji frekar ræða við sig og Framsóknarflokkinn en Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Miðflokkinn. Hann er gjaldgengur við stjórnarmyndun nú sem hann virtist ekki vera fyrir ári. Það var til dæmis undarleg ákvörðun Guðna Th. Jóhannessonar þá að veita Sigurði Inga aldrei umboð til stjórnarmyndunar þótt forsetinn veitti Pírötum undir forystu Birgittu Jónsdóttur slíkt umboð.

Líta má á þátttöku Sigurðar Inga í viðræðunum undir forystu Katrínar sem viðleitni af hans hálfu til að hækka risið á Framsóknarflokknum og minna á að hann hafi burði þungavigtarmanns. Er hann að búa sig undir að verða sameiningarafl í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og VG?