24.5.2017 19:19

Sigmundur Davíð stofnar Framfarafélagið

Sigmundur Davíð segist ætla að „skapa vettvang fyrir frjálsa umræðu fyrir hin ýmsu samfélagsmál“ en „alls ekki“ stjórnmálaflokk.

Á mbl.is segir frá því miðvikudaginn 24. maí að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og áður forsætisráðherra, boði stofnun nýs félags, Framfarafélagsins, sem stuðla á að framförum á öllum sviðum samfélagsins. Að félaginu komi fólk víða að úr samfélaginu; framsóknarmenn, fólk úr öðrum stjórnmálaflokkum og fólk sem hefur ekki haft formleg afskipti af stjórnmálum.

Sigmundur Davíð segist ætla að „skapa vettvang fyrir frjálsa umræðu fyrir hin ýmsu samfélagsmál“ en „alls ekki“ stjórnmálaflokk. „Vonandi geta hins vegar stjórnmálaflokkar nýtt sér það sem þarna verður til og ég vona sérstaklega að flokkurinn minn geri það,“ segir hann.

Sigmundur Davíð segir Framsóknarflokkinn laskaðan eftir átök innan hans síðustu mánuðina. „Fá tækifæri eru fyrir hinn almenna flokksmann í grasrótinni til að láta til sín taka. Ósætti og skortur á samstöðu stendur í vegi fyrir því að flokkurinn geti þróast áfram og orðið að sterku hreyfiafli í íslensku samfélagi,“ segir Sigmundur. Hann hafi „ekki vettvang innan flokksins eins og sakir standa”.

Í fréttinni á mbl.is segir að „framhaldsstofnfundur“ Framfarafélagsins verði laugardaginn 27. maí en það hafi verið stofnað 1. maí sl. á afmælisdegi Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Sigmundur Davíð segist ætla að ræða hvernig stjórnmál hafa breyst og munu breytast næstu árin. Gestafyrirlesari á fundinum verður Eyþór Arnalds, sem forystumaður Sjálfstæðismanna í Árborg. Nýlega vakti athygli að Eyþór keypti umtalsverðan eignarhlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Eyþór ætlar að ræða „hvernig tækniþróunin hefur breytt innviðum samfélagsins og hvernig við þurfum að búa okkur undir þær breytingar,“ segir Sigmundur Davíð við mbl.is.

Þá er boðað að í Morgunblaðinu á morgun verði „ítarlegt“ viðtal við Sigmund Davíð m.a. um stofnun Framfarafélagsins, stöðu Framsóknarflokksins í dag, atburðina á síðasta flokksþingi flokksins þar sem hann laut í lægra haldi fyrir Sigurði Inga Jóhannssyni í formannskjörinu, óánægjuna sem kom fram á fundi miðstjórnar flokksins á laugardaginn og pólitíska stöðu sína og framtíð.

Viku eftir að Donald Trump náði kjöri eða 15. nóvember 2016 birti Morgunblaðið grein eftir Sigmund Davíð þar sem sagði sér verið hugleikar „þær miklu grundvallarbreytingar sem eru að verða á stjórnmálum á Vesturlöndum“.  Hann segir að langflestir þeirra sem kusu Trump hafi gert það „ekki vegna, heldur þrátt fyrir, framgöngu hans og talsmáta“.

Undir lok greinarinnar sagði Sigmundur Davíð að „umfram allt“ þyrftu stjórnmálaflokkar að endurheimta kjark. Þora að standa fyrir eitthvað þótt því fylgi að vera umdeildir. Stjórnmálamenn vinna beinlínis við að vera umdeildir. Það er hlutverk þeirra að gefa fólki val og láta það finna að valið skipti máli“.

Lokaorðin voru þessi:

„Síðar mun ég fjalla um þær miklu hindranir sem stjórnmálamenn og flokkar mæta við það að takast á við kerfið og hvernig bregðast megi við þeim. Auk þess mun ég svo fjalla um þau stóru álitaefni sem bíða okkar Íslendinga og leggja til lausnir.“

Af þessum orðum frá 15. nóvember 2016 mátti ráða að Sigmundur Davíð ætlaði að skrifa meira um þessi mál. Þær greinar hafa ekki birst í Morgunblaðinu og ólíklega í öðrum fjölmiðlum því að hann hefur átt skjól í blaðinu og notað það sem vettvang sinn. Framfarafélagið kemur kannski í staðinn fyrir greinaflokkinn.