16.12.2017 13:42

Samið um varðveislu arfsins frá Snorra

Þegar grannt er skoðað gætir þess miklu víðar en halda mætti að samtímaverk í öllum listgreinum vísa til menningarlegu arfleifðarinnar sem Snorri skildi eftir sig.

Skömmu fyrir stjórnarskiptin 1. desember 2017 rituðum við Bergur Þorsgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu í Reykholti, undir samstarfssamning til þriggja ára við Kristján Þór Júlíussona, mennta- og menningarmálaráðherra. Myndin sem hér fylgir var tekin í ráðuneytinu að lokinni undirrituninni.

Img-1069Björn Bjarnason, form. stjórnar Snorrastofu, Kristján Þír Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, og Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, fagna gerð þriggja ára samnings.

Þetta er í fyrsta sinn frá því 2007 sem Snorrastofa fær staðfestan samning til langs tíma við ríkið vegna almenns reksturs og verður hann því starfi stofnunarinnar mikil hvatning, segir í fréttatilkynningu frá Snorrastofu.

Undanfarin sjö ár hefur stofnunin einvörðungu fengið framlög frá ári til árs án sérstaks samnings. Í samningnum er kveðið á um að Snorrastofa gangist fyrir og styðji rannsóknir í Reykholti og kynningu á sögu Snorra Sturlusonar og staðnum með skírskotun til arfsins frá Snorra.

Undir forystu Bergs og samstarfsfólks hans er lifandi starfsemi á vegum Snorrastofu í Reykholti allan ársins hring. Menningarviðburðir á staðnum eru vel sóttir og fjöldi ferðamanna leggur leið sína til staðarins.

Á sínum tíma var ákveðið að nýta héraðsskólahúsið í Reykholti annars vegar í þágu ráðstefnuhalds og gistingar og hins vegar fyrir aukaeintök Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Ákvarðanir um þetta voru teknar fyrir rúmum 20 árum.

Margt hefur breyst á þeim tíma sem liðinn er. Bókasafnið hefur nú aðrar hugmyndir um varðveislu varaeintakanna en þá. Ferðamannafjöldinn hefur margfaldast ekki síst við Snorralaug, rétt við austurenda skólahússins, þann enda sem hýsir bækurnar.

Hjá okkur í stjórn Snorrastofu hefur mótast hugmynd um að varaeintökin flyttust annað, eins og bókasafnið vill, og þessi hluti skólahússins verði nýttur til kynningar á arfi Snorra í samtíðinni. Þegar grannt er skoðað gætir þess miklu víðar en halda mætti að samtímaverk í öllum listgreinum vísa til menningarlegu arfleifðarinnar sem Snorri skildi eftir sig.

Hér sést oft vitnað til þess að ferðamenn leggi leið sína til landsins og feti í fótspor þeirra sem hafa gert kvikmyndir eða sjónvarpsþætti fyrir áhorfendur um heim allan. Í því samhengi má ekki gleyma að minna á að rætur margra þessara mynda og þátta er að finna í höfundarverki Snorra sem skráð var í Reykholti.

Nú fyrir jólin gefur bókaútgáfan Benedikt til dæmis út bókina Goðin í Ásgarði í endursögn Neils Gaimans og þýðingu Urðar Snædal. Þar er vitnað í Snorra og sagt frá afrekum goðanna og uppátækjum, dáðum og djörfung en einnig lygum og undirferli. Neil Gaiman er heimsfrægður og margverðlaunaður höfundur bóka og kvikmyndahandrita.

Áformin um viðunandi hús yfir Árnastofnun við hlið Þjóðarbókhlöðunnar eru að nýju komin á framkvæmdastig. Í tengslum við gerð hússins er unnið að hugmyndum um hvernig staðið skuli að sýningu og kynningu á handritunum við nýjar aðstæður.

Í þessari vinnu ætti að huga að uppruna handritanna ­– hvar þau voru skráð, í Reykholti og á Þingeyrum í Húnaþingi. Handritin eru vissulega varðveitt í Reykjavík og þar verða þau til sýnis en sýninguna á að nýta til að þróa tengslin við upprunastaðina og gera þá að hluta þess sem að er stefnt.

Milli Snorrastofu og Þingeyraverkefnisins svonefnda hafa skapast tengsl sem miða að því að samhliða fornleifarannsóknum á Þingeyraklaustri verði stofnað til sérstakrar rannsóknar á upphafi og þróun ritmenningar á Íslandi.