11.11.2017 12:28

Ríkisútvarpið afhjúpað í Reykjavíkurbréfi

Aðhaldið sem Morgunblaðið veitir ríkisútvarpinu er lofsvert og nauðsynlegt framlag til lýðræðislegra skoðanaskipta í landinu.

Ríkisútvarpið hefur eins og kunnugt er tvær tekjulindir: 4 milljarða króna í nefskatt og 2 milljarða í auglýsingatekjur. Það lætur að sér kveða með rekstri hljóðvarps og sjónvarps auk þess að sækja nú inn í netheima. Þegar því var komið á laggirnar fyrir 87 árum var tækni þannig háttað að enginn annar hafði burði hér á landi til að nýta sér hana nema ríkið. Árið 1966 ákvað ríkið að opna sjónvarpsstöð til að svara þörf landsmanna fyrir þá þjónustu sem margir höfðu kynnst á heimilum sínum vegna „kanasjónvarpsins“ svonefnda, það er sjónvarpsstöðvar varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Engin sambærileg rök eru fyrir útþenslu ríkisútvarpsins á netinu. Um miðjan níunda áratuginn lögðu fréttamenn ríkisútvarpsins niður vinnu í verkfalli. Þá urðu til einkareknar útvarpsstöðvar og síðan var lögbundin einokun ríkisins á útvarpsrekstri afnumin árið 1986.

Breytingar á lögum um greiðslumiðlun og persónuvernd leiða til þess að verð á bönkum, sem nú eru að mestu í ríkiseign hér á landi, lækkar líklega hratt á næstunni. Áhættusamt er fyrir ríkið að selja ekki bankana sem fyrst. Sömu sögu er að segja um ríkisútvarpið, ný tækni lækkar verðmæti þess.

Ríkisútvarpið lækkar ekki aðeins í verði vegna nýrrar tækni heldur vegna þess hve hlutdrægt það er og bregst á hrokafullan hátt við gagnrýni. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sem dagsett er í dag (11. nóvember) segir:

„Þessi stofnun [ríkisútvarpið] telur sér nauðsynlegt að auglýsa reglulega að hún sé allrar þjóðarinnar. Það á hún að vera að lögum en það birtist okkur helst í sama skilningi og Tass gamla [sovéska áróðurs-fréttastofan] hafði á sínum tíma.

En þrátt fyrir sjálfumglaðan áróður og einstæða fjárhagslega stöðu, sem gerir raunverulega samkeppni erfiða, virka tilburðir til heilaþvottar ekki. Kannanir staðfesta það.

En hver er skoðun fólksins?

Opinber stofnun um fjölmiða, sem er reyndar sjálf æði skrítið fyrirbæri, lét Gallup gera fyrir sig könnun. Þar var spurt hvort menn „teldu að Ríkisútvarpið (RÚV) sé almennt hlutlaust eða hlutdrægt í fréttum og fréttatengdum efnum“.

Niðurstöður þessarar könnunar voru ótrúlegar. Aðeins 14% allra aðspurðra töldu „RÚV“ að „öllu leyti hlutlaust“. Eins og allir vita þá er slíkt hlutleysi forsenda réttlætingar þess að reka „RÚV“ fyrir opinbert fé.

Um 22% aðspurðra töldu Ríkisútvarpið fréttalega „mjög hlutlaust“ og 30% „frekar hlutlaust.“

Fáir líklegra kjósenda Sjálfstæðisflokks töldu „RÚV“ uppfylla fréttalega hlutleysisskyldu sína til fulls. Aðeins 9 prósent þessa fjölmennasta kjósendahóps treystu sér til að merkja í annan af tveimur efstu flokkum um hlutleysi. Langflestir þessara 9% þó aðeins í lægri flokkinn af tveimur.

Aðeins 8% stuðningsmanna Framsóknarflokks treystu sér til að merkja í þessa tvo reiti og nánast engir í hærri reitinn.

Hins vegar merktu 73% hugsanlegra kjósenda Sjálfstæðisflokksins í reiti um að „RÚV“ sýndi fréttalega hlutdrægni. Um 48 prósent aðspurðra töldu stofnunina fréttalega mjög hlutdræga eða algjörlega hlutdræga. Um 65 prósent stuðningsmanna Framsóknarflokks merktu sína afstöðu í hlutdrægnisdálkana.

Þarna er ekki eingöngu um flokksbundið fólk að ræða, heldur það fólk sem í þessum kosningum taldi sig líklega kjósendur þessara flokka. (Könnunin var tekin fyrir stofnun Miðflokksins). Það vekur athygli að þeir sem töldu sig stuðningsmenn annarra flokka en þeirra 7 sem nefndir voru í könnuninni voru verulega tortryggnir í garð „RÚV“.

Aðdáendaklúbburinn

En svo var það klapplið fréttastofunnar.

Aðeins 5% Samfylkingarmanna merktu í dálkinn um að „RÚV“ væri hlutdrægt í fréttalegum efnum og enginn þeirra að stofnunin væri algjörlega hlutdræg«. Enn færri stuðningsmanna VG voru þarna megin á skalanum þótt einhverjir sárafáir þeirra teldu hana algjörlega hlutdræga.

Niðurstöðurnar voru himinhrópandi. Þó voru viðbrögð útvarpsstjórans, sem íslenskur almenningur hefur nánast ekkert orðið var við í því starfi, enn sérkennilegri. Þau voru annaðhvort ótrúlega ósvífin eða forhert, nema hvort tveggja væri.

Ályktunin sem af því verður dregin er því miður sennilega sú, að „RÚV“ er óforbetranlegt og það bætist við þá staðreynd að það er nú orðið óþarft tæknilega séð.“

Fyrir þá sem muna ekki hvernig útvarpsstjórinn snerist til varnar þessum áfellisdómi yfir ríkisútvarpinu skal rifjað upp að hann taldi könnunina einfaldlega hafa verið gerða á vitlausum tíma. Þetta minnir á svar Alberts Guðmundssonar leiðtoga Borgaraflokksins þegar hann var spurður hvers vegna flokkurinn fengi svona lítið fylgi í skoðanakönnunum. Albert sagði: „Borgaraflokksmenn eru úti að vinna og taka því ekki símann.“

Aðhaldið sem Morgunblaðið veitir ríkisútvarpinu er lofsvert og nauðsynlegt framlag til lýðræðislegra skoðanaskipta í landinu. Hér skal að lokum enn vitnað í Reykjavíkurbréfið:

„Þær tvær fleygu setningar sem eru mest lýsandi fyrir hrokafulla og brenglaða framgöngu „RÚV“, frá tveimur síðustu atrennum til að kjósa til þings, eru þessar (efnislega) Hvar á feiti karlinn að vera? (um þáverandi forsætisráðherra) haustið 2016, og Hverjir vilja vinna með Katrínu Jakobsdóttur? Réttið upp hönd. Haustið 2017. Ekki verður séð að starfsmennirnir sem áttu í hlut eða útvarpsstjórinn hafi séð neitt athugavert við þessi einstöku tilþrif. En það má viðurkenna að þau voru í góðu samræmi við starfsemina að öðru leyti.“