15.9.2017 9:28

Ríkisstjórnin fallin (1)

Telur stjórn Bjartrar framtíðar að þar sem ráðherrar Bjartrar framtíðar hafi ekki fengið vitneskju um trúnaðarsamtal dómsmálaráðherra og forsætisráðherra sé trúnaðarbrestur orðinn slíkur innan ríkisstjórnarinnar að flokkurinn geti ekki lengur átt aðild að henni.

Ríkisstjórnin er fallin vegna þess að stjórn Bjartrar framtíðar sættir sig ekki við að dómsmálaráðherra hafi í júlí upplýst forsætisráðherra í trúnaði um að faðir forsætisráðherra hefði ásamt tveimur öðrum ritað undir bréf sem urðu til þess að dómsmálaráðuneytið tók til athugunar og samþykkti að mæla með því að barnaníðingi var veitt uppreist æru. Telur stjórn Bjartrar framtíðar að þar sem ráðherrar Bjartrar framtíðar hafi ekki fengið vitneskju um þetta sé trúnaðarbrestur orðinn slíkur innan ríkisstjórnarinnar að flokkurinn geti ekki lengur átt aðild að henni.

Af hálfu dómsmálaráðuneytisins er unnið að því að birta opinberlega allar upplýsingar um afgreiðslu mála sem varða uppreist æru frá árinu 1995. Eftir að fréttastofa ríkisútvarpsins óskaði eftir upplýsingum í máli sem tengdist öðrum barnaníðingi en um er að ræða í ofangreindu tilviki tók sérstök nefnd, úrskurðarnefnd um upplýsingamál, það er um skyldu til að veita aðgang að opinberum gögnum málið til úrskurðar. Ráðuneytinu varð gert skylt að birta gögnin með nokkrum takmörkunum og er nú unnið að því að búa þau í þann búning sem fellur að skilyrðum nefndarinnar.

Það hljóta að teljast góðir stjórnsýsluhættir hjá ráðuneytinu að hafa valið þessa leið við afgreiðslu málsins. Allar heimildir til birtingar gagnanna eru fyrir hendi. Aldrei stóð til að leyna neinu. Birting upplýsinganna valt á hve langan tíma vinnan tæki – eitt mál var í brennidepli meðal annars hjá þingnefnd og fékk það forgang.

Um það getur varla verið deilt að einstakir ráðherrar geta rætt við forsætisráðherra án þess að honum sé skylt að skýra samstarfsráðherrum sínum frá efni samtalsins hvort sem er innan eigin flokks eða samstarfsflokka. Þá er ráðherrum einnig í sjálfsvald sett hvað þeir hafa frumkvæði að segja við þingflokka sína eða á alþingi. Krafan sem Björt framtíð gerir um upplýsingaskyldu á hendur forsætisráðherra eða dómsmálaráðherra í þessu máli er þess eðlis að líta verður á hana sem fyrirslátt þegar tekin er ákvörðun í stjórn flokksins að slíta stjórnarsamstarfi.

Dómsmálaráherra lýsir afstöðu Bjartrar framtíðar sem „algjöru ábyrgðarleysi“ og má taka undir það ef ástæðan stjórnarslitanna er sú sem upp er gefin. Annað hlýtur að búa að baki og er nærtækt að vísa til fylgisleysis flokksins í könnunum.

Uppnámið vegna fréttanna um uppreist æru barnaníðinga er til marks um samfélagsbreytingar sem ekki verður svarað nema með lagabreytingum og hefur dómsmálaráðherra boðað þær. Undanfarin ár hafa umræður um barnaníð og kynferðislegt áreiti sett mikinn svip á stjórnmálin. Unnið hefur verið að breytingum á refsilögum til að harðar sé tekið á þeim málum. Nú snýst málið hins vegar um réttarstöðu þeirra í þjóðfélaginu sem tekið hafa út refsingu sína vegna kynferðisbrota. Að umrótið verði svo mikið vegna þessa að leiði til stjórnarslita eins og nú er orðið er óvænt svo að ekki sé meira sagt.

Á þessu stigi er ótímabært að segja til um næstu viðburði. Það er efni í annan pistil. Á hitt skal minnt að það er ekki aðeins samstarf innan ríkisstjórnarinnar sem hefur slitnað heldur einnig milli Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Smáflokkarnir voru eins og samloka að loknum kosningum 29. október 2016. Þeir eru það ekki lengur. Það skapar nýja stöðu í stjórnmálunum.