30.6.2018 10:38

Pírati við Austurvöll – jafnaðarmaður í Strassborg

Píratar eiga engan þingflokk í Strassborg. Þórhildur Sunna valdi þann kost að skrá sig í þingflokk jafnaðarmanna í Strassborg og situr í umboði hans sem formaður laga- og mannréttindanefndarinnar.

Í fréttum ríkisútvarpsins kl. 18.00 föstudaginn 29. júní var Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður pírata, kynnt til sögunnar sem formaður laga- og mannréttindanefndar þings Evrópuráðsins þegar hún blandaði sér í áróðurskenndar umræður hér á landi um skipun dómara í landsrétt fyrir ári. Nú kemur skipunin til kasta Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í Strassborg.  MDE er ein af stofnunum Evrópuráðsins og dæmir hvort ríki fari að mannréttindasáttmála Evrópu. Sáttmálinn er lög hér á landi.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl. fór halloka í málflutningi sínum fyrir landsrétti og hæstarétti með þá stefnu pírata að leiðarljósi að dómsmálaráðherra hefði staðið rangt að skipun dómara í landsrétt. Alþingi felldi tillögu Þórhildar Sunnu um vantraust á dómsmálaráðherra vegna málsins. Nú binda hún og Vilhjálmur H. vonir við að MDE fallist á málstað þeirra.

1021128336Úr sal þings Evrópuráðsins í Strassborg.

Á vefsíðunni Visir.is birtist sú skoðun Þórhildar Sunnu að með því að taka málið fyrir staðfesti MDE „að skipan dómara í Landsrétt skapi réttaróvissu og sé alvarleg“. Þess er látið ógetið að réttaróvissuna má rekja til aðgerða pírata og Vilhjálms H. Á alþingi, innan framkvæmdavaldsins og réttarkerfisins ríkir engin óvissa um þetta mál. Óvissan er tilbúningur þeirra sem urðu undir við val á dómurum og vilja bætur fyrir, reka pólitískt horn í síðu ráðherrans eins og píratar eða nota þetta sem rök fyrir rétti eins og Vilhjálmur H. Úr því að málið er komið til Strassborgar vill MDE komast fljótt að niðurstöðu til að eyða réttaróvissu af völdum þessa fólks.

MDE spyr um framkvæmd atkvæðagreiðslu á alþingi. Þetta gerði forseti Íslands líka og fékk skýrslu sem hann mat fullnægjandi áður en hann skrifaði undir skipunarbréf dómaranna. Ætlar MDE að grípa fram fyrir hendur forseta? Þá spyr MDE um áhrif þess að hæstiréttur var ósammála dómsmálaráðherra um framkvæmd rannsóknarskyldu samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Skapar ólíkt mat á inntaki 10. gr. réttaróvissu?

Það verður fróðlegt að sjá hver verður afstaða MDE til þessara álitaefna.

Nýlega var skýrt frá því opinberlega að þingmaður Pírata (Þórhildur Sunna?) hefði hringt í sendiráð Norðurlandanna í Reykjavík til að vinna gegn því að Bragi Guðbrandsson næði kjöri í barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Hefur Bragi verið skotmark þingflokks Pírata eins og Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.

Framtak þingflokks Pírata gegn Braga á alþjóðavettvangi vekur spurningu um hvort Þórhildur Sunna beiti sér gegn dómsmálaráðherra sem formaður laga- og mannréttindanefndar þings Evrópuráðsins.

Á þinginu í Strassborg veljast menn í nefndir og til trúnaðarstarfa eftir reglum um samstarf þingflokka. Píratar eiga engan þingflokk í Strassborg. Þórhildur Sunna valdi þann kost að skrá sig í þingflokk jafnaðarmanna í Strassborg og situr í umboði hans sem formaður laga- og mannréttindanefndarinnar.

Vegna málflutnings fyrir MDE gegn íslenska ríkinu þarf að kanna hvort formaður laga- og mannréttindanefndar þings Evrópuráðsins beitir sér gegn hagsmunum íslenska ríkisins í Strassborg.

Þá ætti Björn Leví Gunnarsson, þingmaður pírata, að leggja fram fyrirspurn innan flokks síns um hvort fari saman að vera pírati við Austurvöll og jafnaðarmaður í Strassborg.