21.11.2017 14:58

Orkuveita án pólitískrar ábyrgðar

Borgarstjóri Dagur B. Eggertsson nálgast þessi mál öll sem áhorfandi en ekki sem stjórnandi – úr pólitísku ábyrgðinni er ekkert gert.

Orkuveita Reykjavíkur (OR) í félagið hefur aftur fengið forræði yfir húsunum að Bæjarhálsi 1 þar sem meginstarfsemi fyrirtækisins er. OR seldi fasteignafélaginu Fossi húsin árið 2013 og hefur verið leigjandi þar síðan. Eftir að í ljós kom að um þriðjungur húseignanna, svokallað vesturhús, var stórskemmt af raka hafa OR og eigendur húsanna leitað bestu lausna. Vesturhúsið hefur staðið autt um nokkurra mánaða skeið, sagði á vefsíðu OR mánudaginn 20. nóvember. Þar segir einnig: „OR mun eftir sem áður standa vörð um hagsmuni fyrirtækisins gagnvart þeim sem að húsbyggingunni komu með tilliti til hugsanlegra bóta.“

Í fréttinni segir einnig:

„OR seldi húseignirnar fyrir 5,1 milljarð króna árið 2013. Það var úrslitaár í framvindu Plansins þar sem OR þurfti að greiða tugi milljarða króna af lánum og laust fé var því afar lítið. OR ávaxtaði söluandvirðið í varasjóði og eru áætlaðar vaxtatekjur OR af fénu frá sölu hússins rúmlega 330 milljónum króna umfram leigugreiðslur OR til Foss.

Rakaskemmdirnar í vesturhúsinu sköpuðu OR óviðunandi aðstæður. Fyrirtækið óskaði því eftir viðræðum við Foss fasteignafélag um lausn á vandanum. Niðurstaða viðræðna varð sú að OR fær að nýju fullt forræði yfir fasteignunum við Bæjarháls 1. OR kaupir allt hlutafé fasteignafélagsins á 1,4 milljarða króna og tekur yfir lán sem á félaginu hvíla sem nema 4,1 milljarði. OR hyggst endurfjármagna þau með útgáfu skuldabréfa. Gert var ráð fyrir útgjöldum vegna þessa í fjárhagsáætlun OR sem var samþykkt í stjórn 20. október síðastliðinn.“

Þessi mynd birtist á vefsíðu OR og sýnir mannvirki fyrirtækisins á Bæjarhálsi.

Því fer víðs fjarri að vandi OR vegna mannvirkjanna á Bæjarhálsi sé leystur. Málið er í einum hnút sem OR verður að leysa. Hafi eigendur hlutafélagsins Foss ekki gert sér grein fyrir að þeir keyptu stórgallaða eign árið 2013 eru þrír kostir fyrir hendi: (1) Ástand húsanna var ekki skoðað. (2) Enginn galli fannst við skoðun. (3) Gallar voru látnir liggja milli hluta vegna þess að um fjárhagslega björgunaraðgerð var að ræða.

Stjórnendur OR birtu upplýsingar um alvarlegt ástand vesturhússins svonefnda 25. ágúst 2017, sjá mynd hér fyrir ofan. Þeir sem stjórnuðu OR þegar húsið var reist og leyndu kostnaði við gerð þess eins lengi og þeim var fært segja ástand vesturhússins viðhaldsskorti að kenna. Segi þeir satt um þetta áttu kostir 1 eða 3 við árið 2013 þegar húsið var selt Foss.

Í stað þess að upplýsa um alla þessa þætti á grundvelli fyrirliggjandi gagna og taka ákvörðun um framhaldið hefur hefur OR lagt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur ítarlega beiðni um að dómkvaddur matsmaður verði fenginn til að meta ástæður skemmdanna og tjónið af þeim. Niðurstaðan verður grunnur að því að meta lagalega stöðu OR. Þótt þessi langa og seinfarna leið hafi verið farin segir Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, í tilefni kaupanna af Foss: „Deilur eða málarekstur [milli Foss og OR] gætu kostað báða aðila mikið fé og kallað á áralanga óvissu um sjálft meginefni málsins; heilsuspillandi hús sem er engum til gagns.“

Vill Kjartan „að kannað sé til hlítar hvort það fasteignafélag [Foss], sem er nú skráður eigandi hússins og hefur haft af því tekjur undanfarin ár, eigi ekki að axla meiri ábyrgð á kostnaði vegna óhjákvæmilegra viðgerða og endurbóta á því en ráð er gert fyrir samkvæmt fyrirliggjandi tillögu“.

Sama á við um þessi vandamál OR og annað við stjórn Reykjavíkurborgar um þessar mundir að borgarstjóri hefur í höndum álit borgarlögmanns um að hann beri enga lagalega ábyrgð þegar kemur að OR og annarri starfsemi borgarinnar. Borgarstjóri Dagur B. Eggertsson nálgast þessi mál öll sem áhorfandi en ekki sem stjórnandi – úr pólitísku ábyrgðinni er ekkert gert.

Háværir fjölmiðlamenn láta ekkert í sér heyra vegna málsins. Vinstri flokkarnir hneykslast ekki í einum kór. Meira að segja Framsóknarmenn í borgarstjórn þegja vegna forsögunnar. Sjálfstæðismenn eru ekki til neinna stórátaka í borgarstjórn og taka nú til við eigið leiðtogakjör. Þar ætti að kjósa þann til forystu sem hefur burði til að kalla þá til pólitískrar ábyrgðar sem bera hana.