13.8.2018 8:31

Óbyggðagöngur í stað jóga

Fræga fólkið lítur nú á gönguferðir, helst í óbyggðum, sem bestu leiðina til að halda sér í formi. Þær koma nú í staðinn fyrir jóga sem „it“.

Fréttir af tölfræði vegna komu ferðamanna minna á aflafréttir fyrri ára þegar daglega var sagt frá löndun á loðnu og til hvaða hafna siglt væri með hana, hvar væri löndunarbið og hvort jafnvel þyrfti að sigla frá Austfjarðamiðum til Vestmannaeyja til að geta losnað við aflann.

Einn daginn ræður gengi krónunnar hve margir koma frá einu landi umfram annað. Næsta dag er fjöldi flugferða til einstakra landa sagðir ráða sveiflum í fjölda ferðamanna frá þeim. Almenn skynsemi segir að ferðafjöldinn ráði meiru en gengið.

Venjur breytast og í The Sunday Telegraph mátti 12. ágúst lesa grein sem hófst á þessum orðum: Cast aside fusty images of tatty cagoules and shorts with cargo pockets. Hiking is the fitness trend du jour with celebs like Reese Witherspoon, Taylor Swift and Jennifer Garner boasting about its heart-pumping, bum-sculpting and mind-clearing benefits.

View-laugavegur-best-hike-of-iceland6-1200x800Hér er ekki gerð tilraun til að íslenska þennan texta. Hann snýst um að fræga fólkið líti nú á gönguferðir, helst í óbyggðum, sem bestu leiðina til að halda sér í formi. Þær komi nú í staðinn fyrir jóga sem „it“. Ferðafélag Íslands og ferðafélagið Útivist ættu að huga að nýjum markhópi.

Ein af ástæðunum fyrir vinsældum gönguferða er sögð vera að þær falli svo vel að Instagram-samélagssíðunni, þær séu svo Instagrammable, myllumerkið #hiking á 35 milljónir færslna. Að gorta sig með mynd á hverri gönguferð hvetji sífellt fleiri til að bregða undir sig betri fætinum.

Könnun YouGov fyrir Wiggle-fyrirtækið sem selur allt til líkamsræktar og útivistar sýnir að 51% aðspurðra nefna göngu sem helstu líkamsrækt sína. Segir blaðið að þetta ætti að gleðja fyrirtæki sem sérhæfa sig í útivistarfatnaði.

Til eru athvörf fyrir göngumenn e. hiking retreat við sérvaldar gönguleiðir þar sem vel er að öllu búið. Hér á landi er vissulega hefð fyrir slíku. Miðað við vaxandi áhuga ætti að færa þjónustu á þessu sviði einu stigi ofar fyrir nýja markhópinn.

Í landi ofurverðlags ber að bjóða hágæðaþjónustu á öllum sviðum með öryggi, hreinlæti og náttúrukyrrð; góða stíga og markaðar brautir til að útiloka átroðning og eyðileggingu. Það er misskilningur að öllum skuli heimilt að ganga um allt og ekki fari saman nýting víðerna til gönguferða og annarra hluta í þágu betra mannlífs.