5.4.2018 12:11

Núvitund í stað „hálftíma hálfvitanna“?

Í Fréttablaðinu í morgun segir frá því að Núvitundarsetrið hafi nýlega fengið hálfa milljón króna í styrk til að kynna alþingismönnum „ágæti núvitundar“.

Hér hefur oftar en einu sinni verið bent á að hugleiðsla nýtur æ meiri vinsælda á öllum sviðum mannlegs lífs. Stórfyrirtæki á borð við Google hafa gert námskeið í hugleiðslu að „framleiðsluvöru“ sinni og meðal annars boðið hana hér í Endurmenntun Háskóla Íslands fyrir um 100.000 kr. daginn fyrir hvern einstakan þátttakanda.

Á Vesturlöndum er ekki talað um hugleiðslu í þessari markaðssetningu heldur er enska orðið mindfulness (þýtt núvitund eða gjörhygli) notað og má rekja það til prófessors í læknisfræði við University of Massachusetts. Hann heitir Jon Kabat-Zinn og lagði fyrstur manna grunn að iðkun núvitundar í læknisfræði og sálfræði. Hann þróaði á áttunda áratugnum Mindfulness Based Stress Reduction (MBSR), átta vikna núvitundarnámskeið gegn streitu.   Bækur hans hafa verið á metsölulistum og þýddar á yfir 40 tungumál.

Núvitundarsetrið hefur boðið Jon Kabat-Zinn til landsins og verður hann með viðburði í Hörpu um mánaðamótin maí/júní.

Í Fréttablaðinu í morgun segir frá því að Núvitundarsetrið hafi nýlega fengið hálfa milljón króna í styrk til að kynna alþingismönnum „ágæti núvitundar“. Breskur þingmaður kemur í kynningarferð til landsins og síðan verður efnt til átta vikna námskeiðsins í núvitund eða hugleiðslu fyrir þingmenn.

Af því sem segir í Fréttablaðinu má ráða að blaðamaðurinn viti ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Þar stendur: „Hingað til hafa þingmenn hugsað flestar sínar gjörðir í kjörtímabilum. Áhugavert verður að sjá hvort námskeiðið færi þá í núið og hvort merkjanleg áhrif muni sjást í lagasetningu. Sérstaklega spennandi verður að sjá hvernig íhaldssömustu þingmennirnir koma til með að bregðast við nýjum hugsunarhætti.“

Blaðamaðurinn hefur greinilega litla vitneskju um hvaða áhrif hugleiðsla eða núvitund hefur. Skilgreining hans er fjarri því sem kynnt er á vefsíðu Núvitundarsetursins. Þar segir að núvitundarþjálfun skili sér meðal annars í aukinni almennri starfsánægju, bættri líðan starfsmanna og bættum samskiptum milli starfsmanna, þá aukist hugræn færni, einbeiting, minni, námsfærni og sköpun og að auki tilfinningagreind og þrautseigja.

Vonandi tekst námskeið Núvitundarsetursins með alþingismönnum vel. Hver veit nema áhrifanna yrði helst vart með því að skammaryrðið „hálftími hálfvitanna“ ætti ekki lengur við um upphafsstund hvers þingfundar? Þeim tíma yrði betur varið tvisvar í viku til hugleiðslu í anda núvitundar eða annarra aðferða. Þá myndi námskeið Núvitundunarsetursins fyrir alþingismenn stuðla að almennri ánægju langt út fyrir þingsalinn sjálfan.