3.9.2017 10:47

Nú hótar Kim Jong-un með vetnissprengju

Norður-Kóreumenn eru þrælar harðstjórans sem dregur alla athygli að ríki sínu með þróun gjöreyðingarvopna og hótunum í garð annarra. Miðað við grimmdina gagnvart eigin þjóð er hann til alls vís gagnvart öðrum.

Norður-Kóreumenn hafa gert sjöttu og öflugustu tilraun sína með kjarnorkuvopn til þessa. Jörð skalf í Norður-Kóreu og nágrenni að morgni sunnudags 3. september þegar tilraunin var gerð. Stjórnvöld landsins segja að um vetnissprengju hafi verið að ræða og hana megi setja á langdræga eldflaug. Fyrr á árinu gerðu N-Kóreumenn tilraun með eldflaug sem þeir segja að nái til skotmarka í bandarískum stórborgum.

Tilraunin með risasprengjuna er bein ögrun við Donald Trump Bandaríkjaforseta sem sagði að „eldi og brennsteini“ myndi rigna yfir N-Kóreu héldi Kim Jong-un, harðstjóri landsins, áfram á þessari braut. Fyrir nokkrum dögum töluðu Trump og Rex Tillerson, utanríkisráðherra hans, eins og hótanir Trumps hefðu borið einhvern árangur. Jafnframt gætti misræmis milli hótana forsetans og orða Tillersons og Jims Mattis varnarmálaráðherra um að enn ætti að leita niðurstöðu með viðræðum fremur en vopnaskaki.

Í fyrstu frétt The New York Times um tilraunina í nótt segir enn óljóst hvort í raun hafi verið um vetnissprengju að ræða en afl sprengjunnar sé greinilega meira en aflið í sprengjunum sem Bandaríkjamenn vörpuðu á japönsku borgirnar Hirsoshima og Nagasaki í síðari heimsstyrjöldinni. Þá draga sérfræðingar í efa að N-Kóreumenn ráði yfir þekkingu og tækni til að setja sprengjuna í odd langdrægrar eldflaugar. Sérfræðingar telja að á mynd sem N-Kóreumenn birtu og sögð er sýna Kim Jong-un skoða vetnissprengju sé um gervisprengju að ræða.

Sérfræðingar eru á því máli að það sem sýnt er hér sem vetnissprengja sé leikmunur til að gleðja harðstjórann Kim Jong-un og draga athygli að mætti hans. 

Að morgni sunnudags 3. september birtust hefðbundnar fréttir um reiði í höfuðborgum ýmissa landa vegna tilraunarinnar og að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna yrði kallað saman til að ræða málið. 

Það er samdóma álit að Trump Bandaríkjaforseti stofni S-Kóreumönnum í hættu gefi hann fyrirmæli um árás á kjarnorkustöðvar í N-Kóreu. Stórskotalið N-Kóreumanna getur náð til Seoul, höfuðborgar S-Kóreu, með fallbyssum sínum.

Af erlendum ríkisstjórnum hafa stjórnvöld í Kína mest tak á N-Kóreustjórn. Xi Jingping, forseti Kína, sýnir harðstjóranum í N-Kóreu minni þolinmæði en fyrri Kínaforsetar en þorir þó greinilega ekki að láta kné fylgja kviði af ótta við afleiðingar hruns N-Kóreu. Af 25 milljónum hungraðra íbúa landsins kynnu margar milljónir að leita til Kína við hrun harðstjórnarinnar. 

Í frétt The New York Times segir að tilraunasprengjan nú sé á versta tíma fyrir Xi Kínaforseta sem einmitt í dag setji leiðtogafund fimm nýmarkaðsríkja – Brasilíu, Rússlands, Indlands, Kína og S-Afríku ­(BRIKS-ríkjanna) – í kínversku borginni Xiamen. Sérfræðingar segja að með sprengingunni skapi Kim Jong-un svo mikil vandræði fyrir Xi að hann neyðist til að grípa til örþrifaráða. N-Kóreumenn vilji að hann þröngvi Trump til beinna viðræðna við Kim Jong-un. Bandaríkjamenn vilja að Kínverjar skeri á alla olíuflutninga til N-Kóreu.

Eins og við Íslendingar höfum kynnst undanfarna daga af viðtölum við Yeonmi Park, 24 ára höfund bókarinnar Með lífið að veði, um lífið í Norður-Kóreu sem hún flúði fyrir tíu árum með móður sinni búa N-Kóreumenn við hungur og fáfræði. Þeir eru þrælar harðstjórans sem dregur alla athygli að ríki sínu með þróun gjöreyðingarvopna og hótunum í garð annarra. Miðað við grimmdina gagnvart eigin þjóð er hann til alls vís gagnvart öðrum. Að þessi hættulega óværa hafi fengið að dafna á þennan veg á jarðarkringlunni er til marks um að mistekist hefur að skapa alþjóðlegt öryggi með öllum þeim samtökum og kerfum sem komið hefur verið á fót. Raunsæi hefur vikið fyrir draumsýn með hörmulegum afleiðingum.