14.9.2017 10:14

Söguleg ummæli forsætisráðherra um útlendingamál

Hér er þessi frásögn af mbl.is endurbirt vegna þess hve sögulegt það er að umræða af þessu tagi fari fram á stjórnmálavettvangi og líklega er Sjálfstæðisflokkurinn eini íslenski stjórnmálaflokkurinn sem hefur þrek til að taka þessi mál til umræðu á málefnalegan hátt og á svipuðum grunni og gert er í forystuflokkum í öðrum löndum.

 

Útlendingamál eru rædd á allt annan veg á stjórnmálavettvangi hér en annars staðar á Norðurlöndunum þar sem þau má telja meðal kjarnamála. Því var til dæmis fagnað af dönskum stjórnmálamönnum í gær, 13. september, að Danmörk hefur hrapað niður vinsældalistann hjá hælisleitendum þegar litið er til samanburðar milli ESB-ríkja, landið er nú í 17 sæti á listanum og þakkar útlendingamálaráðherrann það rúmlega 60 breytingum á reglum um meðferð útlendingamála, ákvarðanir voru teknar um að herða reglurnar.

Eftir útreiðina sem Verkamannaflokkurinn í Noregi fékk í þingkosningunum mánudaginn 11. september var vakið máls á því í Danmörku að Jafnaðarmannaflokkurinn stæði betur að vígi þar en víða annars staðar vegna þess að hann hefði stutt hertar reglur í útlendingamálum. Hér á landi beitir Samfylkingin sér fyrir því um þessar mundir að grafa undan ákvæðum í nýsettum útlendingalögum.

993112Mynd af mbl.is af Bjarna Benediktssyni á fundi Samtaka eldri Sjálfstæðismanna miðvikudaginn 13. september, ljósmynd: Kristinn Magnússon.

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti ræðu og sat fyrir svörum á fjölmennum fundi Samtaka eldri Sjálfstæðismanna í hádegi miðvikudaginn 13. september. Þar bar útlendingamál á góma eins og lesa mátti sama dag í greinargóðri frásögn á mbl.is.

Þar er haft eftir Bjarna:

„Það er ekki hægt að útiloka að straumur fólks til Íslands vegna einhverrar þróunar jafnvel aukist frá því sem hefur verið í dag. Eitt af því sem önnur lönd hafa gert til að bregðast við er að taka upp áritanir, að fólk fái ekki að koma til lands nema að vera með áritanir. Það kann að vera á einhverjum tímapunkti að einhver slík úrræði þurfi að koma til skoðunar. [...]

Við veljum okkur ekki að vera í þeirri stöðu að fá til okkar hælisleitendur. Þetta er ástand sem hefur skapast í heiminum og ef eitthvað er getum við þakkað fyrir að vera eyja norður í höfum með nokkuð mikinn frið í næsta nágrenni.[...]

Það sem við höfum lært er að það borgar sig að stórefla stjórnsýsluna, þannig að niðurstaða fáist í þau mál sem allra fyrst. Það er mannréttindamál að fá svar strax. [...] Mér finnst erfitt að horfa á [eftir] þessum miklu fjármunum sem fara í þetta mál."

Þá segir Freyr Bjarnason blaðamaður:

„Ráðherra bætti við að því miður hafi reynst vandi að tryggja úrræðin og nefndi sem dæmi að lögreglan fari ekki óvopnuð í Víðines þar sem margt af fólkinu bíði sinna mála. Mikilvægt væri að mannúðarsjónarmið og mannréttindi fólksins séu virt.“

Og enn fremur segir í frétt mbl.is:

„Þór Whitehead, sagnfræðingur, steig fram og sagði að „hælisleitendastraumurinn“ stafi að stórum hluta af ákvörðun fyrrverandi innanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins um að afturkalla ákvörðun Útlendingastofnunar um að neita fjölskyldu frá Albaníu landvist. Fiskisagan hafi flogið um að Íslendingar væru reiðubúnir að opna sitt land,. „Í þessum löndum ríkir engin neyð. Þessi ákvörðun er ákvörðun Sjálfstæðisflokksins. Hún hefur ýtt undir þennan straum sem er að kosta ríkisstjórnina 7 milljarða,“ sagði Þór og bætti við að „því miður“ hafi í tíð Bjarna bæði Icesave-málið og ESB-málið skaðað Sjálfstæðisflokkinn. „Ég óttast að haldi flokkurinn áfram á þessari braut skaði hann þjóðina og sjálfan sig,“ bætti hann við.

„Ég er sammála þér. Það var slæm ráðstöfun að fara ríkisborgaraleiðina í Albaníumálinu. Það má kannski segja að við höfum með einhverjum hætti misst stjórn á því máli sem endaði svona,“ svaraði Bjarni en sagði það ekki meginorsökina fyrir auknum straumi hælisleitenda frá Albaníu því hann hafi þegar verið orðinn mjög mikill.

„Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að vera með mjög strangar reglur og skýr svör, ella munum við kalla yfir okkur bylgjur af nýjum flóttamönnum,“ sagði hann og benti á að engin trygging sé fyrir því að „við fáum ekki yfir okkur milljón flóttamenn“ ef hælisleitendur lúti ekki ströngum reglum.

Hann tók fram að hann vilji ekki setja sig í flokk með þeim sem vilji kalla yfir Ísland þjóðfélagsbreytingar til að leysa einhvers konar flóttamannavanda.

Þór spurði Bjarna hvort ákvörðun stjórnvalda um að taka við 100 flóttamönnum á ári fyrir utan hælisleitendur næstu fimm árin hafi ekki verið ákvörðun Sjálfstæðisflokksins.

„Þetta er tímabundin ákvörðun,“ svaraði Bjarni og sagði að í þessu tilviki hafi stjórnvöld stjórn á hverju einasta tilfelli. Fólk sem fari eftir þessari leið eigi möguleika á að skjóta rótum á Íslandi.

„Ég hef ekki áhyggjur, svo lengi sem menn vandi sig við undirbúning við móttöku á slíku fólki. Við tókum ákvörðun á sínum tíma að galopna landamælin fyrir 500 milljóna markaði. Það eru opin landamæri fyrir 500 milljónir manna til að koma hingað. Það hefur ekki kallað yfir okkur þann vanda sem svartsýnir menn töldu.“

Bjarni lauk máli sínu með því að nefna að Íslendingar hafi fengið vinnuafl erlendis frá þegar skortur hefur verið á því og að vinnuafl hafi líka farið frá landinu þegar þörf hefur verið á því.“

Hér er þessi frásögn af mbl.is endurbirt vegna þess hve sögulegt það er að umræða af þessu tagi fari fram á stjórnmálavettvangi og líklega er Sjálfstæðisflokkurinn eini íslenski stjórnmálaflokkurinn sem hefur þrek til að taka þessi mál til umræðu á málefnalegan hátt og á svipuðum grunni og gert er í forystuflokkum í öðrum löndum.

Þegar rætt er um útlendingamál verður að gæta þess að setja ekki alla undir sama hatt. Innflytjendur sem koma hingað eftir lögmætum leiðum er ekki unnt að skipa í sama flokk og farand- og flóttafólk. Þetta gerir ekkert ríki. Hér að ofan var Danmörk nefnd til sögunnar. Þar hafa stjórnvöld ákveðið að rjúfa þá hefð að taka á móti 500 kvótaflóttamönnum á ári af því að danskt samfélag anni því ekki að laga þá sem áður hafa komið að dönskum háttum. Það verði að gera hlé til að vinna heimavinnuna betur ef svo má að orði komast.

Miðað við áhugann sem fjölmiðlamenn sýna þegar haldið er að þeim örlagasögum einstaklinga sem hér hafa sótt um hæli er einkennilegt að þeir sýni ekki umræðum um útlendingamálin í heild þann áhuga sem þeim ber. Þegar rætt er um skort á fjármunum til þjóðþrifamála er ástæðulaust að horfa fram hjá því að sex til sjö milljarðar króna renna næstum á sjálfstýringu til útlendingamála á þessu ári – ekki síst vegna hælisumsókna fólks frá öruggum löndum.