12.8.2017 11:45

Ábyrgðarlaus stjórn höfuðborgar

Í þessum fáu orðum er brugðið upp mynd af ótrúlegum stjórnarháttum borgarstjóra og hvernig hann kemst upp með að skjóta sér undan ábyrgð á því sem hallar á hann við stjórn borgarinnar.

 

Í Staksteinum Morgunblaðsins sagði fimmtudaginn 10. ágúst:

„Þegar Ríkisútvarpið ræddi fyrst við núverandi borgarstjóra tæpum þremur vikum eftir atburðinn [mengunarslysið mikla við strendur Reykjavíkur] og mörgum dögum eftir að embættismenn höfðu gefið fráleitar skýringar á málinu var rætt við hann eins og erlendan túrista nýkominn til landsins.[...] Hvað gerði borgarstjórinn í málinu? Hann vísaði því til „innri endurskoðunar borgarinnar“!!! Er ekki allt í lagi?“

Í þessum fáu orðum er brugðið upp mynd af ótrúlegum stjórnarháttum borgarstjóra og hvernig hann kemst upp með að skjóta sér undan ábyrgð á því sem hallar á hann við stjórn borgarinnar.

Nú berast fréttir um að tæplega 30% sveitarfélaga á Íslandi ætli að greiða að fullu fyrir námsgögn nemenda á grunnskólastigi í vetur. Þarna er um að ræða  skriffæri, stílabækur, trélitir, gráðubogar, vasareiknar og önnur ritföng. Líklegt er að sveitarfélögum sem taka á sig þennan kostnað af foreldrum eða forráðamönnum barna fjölgi.

Hagstofan segir að það kosti sveitarfélögin að meðaltali 1,8 milljónir króna á ári að mennta grunnskólabarn. Fréttastofa ríkisútvarpsins (FRÚ) segir eftir samtöl við kunnáttumenn að það kosti „á bilinu fjögur til sex þúsund krónur að greiða námsgögn fyrir hvert grunnskólabarn“. 

Ekki liggur formlega fyrir hvernig Reykjavíkurborg ætlar að taka á þessu máli. FRÚ segir að um 15 þúsund grunnskólabörn séu í Reykjavík, því geti kostnaður við námsgögn numið um 80 milljónum fyrir borgina. 

Dagur B. hefur ekki látið ná í sig vegna námsgagnakaupa fyrir grunnskólabörn. FRÚ náði tali af S. Birni Blöndal. formanni borgarráðs, sem sagði fimmtudaginn 10. ágúst: 

„Mér finnst nú ólíklegt að þetta náist fyrir skólaárið núna, en það virðist vera stemning fyrir að gera þetta, verja fjármunum með þessum hætti. Það var í sjálfu sér ákveðið að vinna þetta í tengslum við fjárhagsáætlun næsta árs. Það er hinsvegar auðvitað alltaf möguleiki að endurskoða það en tíminn er að verða ansi knappur. Mér sýnist nú á öllu að það sé tímaspursmál hvenær svona kerfi verður komið á frekar en hvort.“

Af því að afstaðan að borga ekki er lítt til vinsælda fallin fer borgarráðsformaðurinn í hringi og treystir sér ekki að segja einfaldlega nei. Af frekari svörum hans má ráða að hann vill að alþingi skyldi sveitarfélögin til að greiða þennan kostnað. Telur hann að þá myndist krafa af þeirra hálfu á hendur ríkinu um að það leggi sveitarstjórnum til aukið fé. S. Björn segir:

„Ég held að það væri ágætt ef að Alþingi myndi afgreiða slíkt frumvarp. Það væri þá auðvitað æskilegt ef að Alþingi myndi veita einhverja fjármuni með því. Það er ekki gott að Alþingi sé að setja auknar kvaðir á sveitarfélög með lagasetningu án þess að tilkomi einhver fjárhagslegur stuðningur og einhver fjárhagsleg ábyrgð.“

Allt er þetta dæmigert fyrir stjórnendur Reykjavíkurborgar. Fjárhagurinn leyfir ekki sömu þjónustu við börn borgarbúa og veitt er víða annars staðar. Þá er látið eins og þetta sé viðfangsefni alþingis og allra skattgreiðenda.

Í borgarráði á dögunum gagnrýndu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar og fulltrúi VG í meirihluta borgarstjórnar, afgreiðslu á ráðningu borgarlögmanns. Staðan hefði til dæmis verið illa auglýst.

S. Björn Blöndal telur af og frá að eitthvað hafi verið athugavert við ferlið og aðeins tveir hafi sótt um starfið. „Hann [S. Björn] telur þorra hæstaréttarlögmanna hafa vitað að staðan hafi verið laus til umsóknar en gagnrýnt hefur verið að hún hafi aðeins verið auglýst einu sinni í einu dagblaði,“ segir í Fréttablaðinu í dag.

Hér hafa verið nefnd þrjú ný dæmi um stjórnarhætti æðstu manna Reykjavíkurborgar: Borgarstjóri varpar eigin ábyrgð vegna mengunarslyss til innri endurskoðunar. Reykjavíkurborg ætlar ekki að greiða námsgagnakostnað grunnskólabarna af því að hún getur ekki krafið ríkið um endurgreiðslu. Formaður borgarráðs segir stöðu nógu vel auglýsta af því að hann telur að þorri hæstaréttarlögmanna hafa vitað að hún væri laus.

Undirbúningur vegna borgarstjórnarkosninga vorið 2018 er að hefjast. Hver verður til þess að lýsa fyrir kjósendum á trúverðugan hátt hve illa er staðið að stjórn höfuðborgarinnar?