18.5.2017 11:47

Ólafur í Samskipum fær sérmeðferð - hvers vegna?

Þingnefndin ætti að senda frá sér greinargerð um meðferð sína þessu máli og hvaða ástæður lágu í raun að baki samþykkt hennar um að taka á móti Ólafi.

Margir velta fyrir sér hver hafi verið tilgangur Ólafs Ólafssonar kaupsýslumanns að óska eftir að ganga fyrir stjórnarskrár- og eftirlitsnefnd alþingis. Nefndarmenn samþykktu að gefa honum orðið en segja síðan að hann hafi ekki haft neitt nýtt til málanna að leggja.

Með því að verða við óskum Ólafs skapaði nefndin fordæmi. Fyrsta rannsóknarnefnd alþingi sem rannsakaði bankahrunið gaf færi á andmælum. Andmælin voru skrifleg en birtust ekki með prentaðri lokaskýrslu nefndarinnar sem vakti undrun margra. Fram hefur komið að lögmaður Ólafs sendi rannsóknarnefndinni vegna sölunnar á Búnaðarbankanum fjölmargar athugasemdir og ábendingar.

Rök Ólafs fyrir að biðja um fund með þingnefndinni voru meðal annars að hann hefði ekki fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri eða andmæla niðurstöðum hennar. Þegar á reyndi var það kjarninn í málflutningi hans að ríkið hefði ekki sett skilyrði um að erlendur aðili væri í kaupendahópi Búnaðarbankans.

Að sjálfsögðu breytir þetta engu um leikfléttuna sem Ólafur hannaði til að hagnast sjálfur – hún var sama eðlis og fléttan sem hann hannaði til að eignast á Samskip.

Líklegt er að Ólafur hafi beðið um fundinn með þingnefndinni til að ganga í augun á erlendum viðskiptafélögum og bönkum vegna frásagnarinnar sem hann hefur hannað út á við í tilefni af skýrslu rannsóknarnefndar alþingis vegna Búnaðarbankans. Hann breytir sögu sinni ekki gagnvart þeim hér á landi sem þekkja hana.

Þingnefndin ætti að senda frá sér greinargerð um meðferð sína þessu máli og hvaða ástæður lágu í raun að baki samþykkt hennar um að taka á móti Ólafi. Hvaða gögn lagði hann fram með fundarbeiðninni sem leiddu til ákvörðunar nefndarinnar?

Fréttahaukurinn Eiríkur Jónsson heldur úti vefsíðunni eirikurjonsson.is. Þar má lesa í dag:

„...að mörgum greiðendum afnotagjalda Ríkisútvarpsins hafi brugðið í brún þegar þeir horfðu á nýja fréttakonu í Kastljósi taka langt viðtal við auðmanninn Ólaf Ólafsson þar sem hann krafsaði í bakkann. Fréttakonan er Sigríður Dögg Auðunsdóttir, eiginkona Valdimars Birgissonar auglýsingastjóra Fréttatímans sáluga og hluthafa, og ástæðan fyrir því að hún tók viðtalið var að Ólafur samþykkti það sjálfur. Sigríður Dögg hefur starfað á fréttastofu RÚV í fáeinar vikur.“

Sé þessi frétt rétt setti Ólafur Ólafsson ekki aðeins fram kröfu við alþingi sem var samþykkt heldur einnig fréttastofu ríkisútvarpsins. Geri aðrir betur!

Lesendum síðu minnar til glöggvunar skal þess getið að Sigríðar Daggar var oft getið hér á síðunni á tíma Baugsmálsins en þá starfaði hún á Fréttablaðinu auk þess sem hún kemur við sögu í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi.