21.4.2017 10:21

Fylkingar mótast innan ESB

Sé nauðsynlegt að þétta raðir Breta vegna þess stóra skrefs sem þeir stíga með því að yfirgefa ESB er ekki síður brýnt fyrir ESB-ríkin að þétta raðir sínar.

Kosið verður til þings í Bretlandi fimmtudaginn 8. júní, eftir sjö vikur. Theresa May forsætisráðherra boðaði til kosninganna til að fá skýrt umboð þjóðar og þings í úrsagnarviðræðunum við ESB.

Sé nauðsynlegt að þétta raðir Breta vegna þess stóra skrefs sem þeir stíga með því að yfirgefa ESB er ekki síður brýnt fyrir ESB-ríkin að þétta raðir sínar. Innan ESB eru Þjóðverjar og Frakkar í forystu, sameini þeir kraftana. Í báðum löndum verður gengið til kosninga á þessu ári – forseti og þing verða kjörin í Frakklandi. Fyrri umferð forsetakosninganna er nú sunnudaginn 23. apríl.

Verði François Fillon, frambjóðandi Lýðveldisflokksins (mið-hægri), annar þeirra sem kemst í síðari umferð forsetakosninganna er líklegt að mið-hægrimenn verði bæði með forseta og þingmeirihluta í Frakklandi um mitt sumar. Komist Emmanuel Marcon, stofnandi flokksins Áfram! (mið-vinstri), í aðra umferð frönsku forsetakosninganna, er líklegt að upplausn verði í frönskum stjórnmálum eftir þingkosningar þar í júní. Marcon hefur enga heildstæða, skipulagða fylkingu að baki sér sem gengur sameinuð til þingkosninganna.

Þýskir jafnaðarmenn völdu fyrir nokkru Martin Schulz, fyrrv. forseta ESB-þingsins, sem frambjóðanda sinn gegn Angelu Merkel, kanslara síðan 2005. Hlaut Schulz mikinn stuðning í skoðanakönnunum í fyrstu en nú er fylgi hans og jafnaðarmanna komið í „eðlilegt horf“ að sögn þýskra fjölmiðla, það er persónulegt fylgi Schulz mældist 29% í vikunni en fylgi Merkel mældist 44%. Kristilegir (CDU og CSU) eru með 36% fylgi en jafnaðarmenn (SPD) með 30%.

Í Bretlandi er skýrt frá gögnum sem lekið hafi verið um samningsmarkmið ESB gagnvart Bretum. Þar er lögð áhersla á að Bretar verði að standa undir öllum kostnaði sem rekja má til úrsagnar þeirra, þar á meðal við að koma ESB-stofnunum sem eru í Bretlandi fyrir á nýjum stöðum, samkeppni um að fá slíkar stofnanir er hafin innan ESB. Þá segir að allan kostnað Breta verði að reikna í evrum en ekki sterlingspundum. Hefur talan 60 milljarðar evra verið nefnd þegar rætt er um hver krafa ESB á hendur Bretum verður.

Í vikunni ræddi Bloomberg-fréttastofan við Petteri Orpo, fjármálaráðherra Finnas, sem segir að innan ESB eigi ríkin ekki að hægja á að efla samstarf sitt þótt Bretar hverfi á braut. Hann segir að skilnaðurinn við Breta eftir 40 ára sambúð eigi eftir að verða erfiður, svo erfiður að enginn vilji feta í fótspor Breta. Telji einhverjir að úrsögn Breta verði öðrum fordæmi sé það misskilningur. Kostnaðurinn vegna úrsagnarinnar verði svo mikill að engum öðrum detti í hug að fara sömu leið og Bretar.

Til að auðvelda ríkjum aðildina að ESB er nú rætt meira en áður um „tveggja hraða“ ESB. Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, sem hefur verið eindreginn talsmaður aukins samruna innan ESB í átt að sambandsríki sagði í vikunni að við núverandi aðstæður væri óraunsætt að vænta þess að enn mætti dýpka samstarf ESB-ríkjanna. Hann sagði að þess í stað ætti að líta á mismunandi samstarfsstig ríkjanna, þau gætu að eigin vild ákveðið hve langt þau vildu ganga á samstarfsbrautinni.

Finnar hafa haldið sig nærri Þjóðverjum við stefnumörkun innan ESB og vegna evrunnar. Finnar eru eina Norðurlandaþjóðin sem notar evru. Innan Finnlands eru ekki allir á einu máli um það, gildir það meðal annars um einn stjórnarflokkinn, Finnaflokkinn.

Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands, formaður Finnaflokksins hefur boðað að hann gefi ekki kost á sér til endurkjörs til formennsku nú í sumar. Tveir frambjóðendur sækjast eftir formennskunni, báðir hafa efasemdir um ágæti ESB. Sampo Terho er talinn hófsamari en keppinautur sinn. Terho telur hugsanlegt og jafnvel líklegt að Finnar segi skilið við evruna á næsta áratug eða síðar.

Finnski fjármálaráðherrann er líklega að tala til eigin landsmanna þegar hann segir það kosta svita, tár og mikla peninga að segja skilið við ESB.