14.3.2017 16:45

Þriðjudagur

Veruleg þáttaskil urðu á tveimur sviðum samfélagsins í dag.

1) Tilkynnt var að fjölskylda Jóns Ásgeirs Jóhannessonar hefði selt Fjarskiptum sem eiga og reka Vodafone allt fjarskipta- og fjölmiðlaveldi sitt utan Fréttablaðsins sem Jón Ásgeir eignaðist með leynd fyrir 15 árum og lagði grunninn að skrautlegum fjölmiðlarekstri hans sem að öðrum þræði miðaði að því að standa vörð um Jón Ásgeir og hagsmuni hans. Þegar tók að halla undan fjölmiðlastarfseminni ætlaði Jón Ásgeir að bæta hag sinn og stöðu með því að snúa sér að fjarskiptarekstri. Hann skilaði ekki þeim árangri sem að var stefnt.

Að nýr og öflugur aðili komi inn á frétta- og fjölmiðlamarkaðinn verður vonandi til að styrkja hann og bæta. Rétt er að minnast þess að erlendis þrífast þeir fjölmiðlar best sem tileinka sér róttækari afstöðu til stuðnings borgaralegum sjónarmiðum og meira aðahald gagnvart opinberum aðilum en hér þekkist. Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur til dæmis sérstöðu meðal allra fréttastofa í heimi að því leyti að þar ríkir bann við flutningi viðskiptafrétta. Áhugi hennar á atvinnustarfsemi miðast nær eingöngu við opinberan rekstur og varðstöðu um hann.

2) Ragnar Þór Ingólfsson vann í dag stórsigur í formannskjöri í stærsta verkalýðsfélagi landsins, Verslunarmannafélagi Reykjavíkur (VR). Hann sigraði Ólafíu B. Rafnsdóttur, sitjandi formann, og fékk 62.98% greiddra atkvæða. Ólafía fékk 37,02%. Atkvæði greiddu 5.706. Á kjörskrá voru alls 33.383. Kosningaþátttaka var því 17,09%.

Lítil þátttaka í kosningunum ber vott um að hvorki Ragnar Þór né Ólafía hafi höfðað sterkt til almennra félagsmanna í VR. Niðurstaðan er á hinn bóginn afdráttarlaust og umboð sitt segist Ragnar Þór ætla að nota til að berjast gegn stefnu sem Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og félagar hafa mótað á vettvangi alþýðusambandsins. Ragnar Þór segir þá til dæmis hafa verið „arfaslaka“ í baráttunni gegn verðtryggingunni auk þess sem hann er andvígur SALEK-samkomulaginu sem reist er á norræna kjarasamningamódelinu. „Úrslitin eru kýrskýr. Ég fer ekki að vinna að norrænu samningamódeli þegar ég er kosinn til að gera það ekki,“ segir Ragnar Þór við mbl.is í dag.

Fylgisleysi Ólafíu ber með sér að henni hefur mistekist að ávinna sér traust félagsmanna VR með því að vera höll undir forystu alþýðusambandsins og taka til máls í þágu hennar þegar þess var óskað. Þá sannar fall Ólafíu einnig að aðild að Samfylkingunni eða virk þátttaka í starfi hennar tryggir engum fararheill í kosningum.