4.3.2017 14:30

Laugardagur

Agnes Bragadóttir blaðamaður ræðir við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra í Morgunblaðinu. Agnes leggur verulega áherslu á áfengissölufrumvarp þingmanna úr nokkrum flokkum auk þess að kenna það við Sjálfstæðisflokkinn þótt mjög skiptar skoðanir séu um málið innan flokksins og þingmenn fleiri flokka en hans flytji frumvarpið að þessu sinni.

Þessi áhersla fjölmiðlamanna á frumvarpið er einmitt ein meginástæða þess að það er flutt ár eftir ár. Flutningsmenn draga alltaf að sér athygli hvað sem líður atkvæðunum.

 

Viðtalið ber vott um yfirvegaða og öfgalausa afstöðu Bjarna til viðfangsefnanna. Eftir að hann settist í stól forsætisráðherra er meiri ró yfir hlutunum en einkenndi stjórnarhætti forvera hans frá 1. febrúar 2009. Þetta er góð aðferð til að „kæla“ andrúmsloftið og gefa öllum færi á að meta stöðu sína og hvert skuli stefnt. Viðfangsefnin núna sýna að fyllilega réttmætt var að ganga til kosninga haustið 2016 til að ná nýrri fótfestu við gjörbreyttar og betri aðstæður en áður í efnahagsmálum.

 

Afstaða Bjarna ræðst ekki af neinni þörf til að slá sig til riddara á kostnað annarra eða til að metast við aðra um það sem vel hefur verið gert. Andstaðan við Bjarna er að verulegu leyti með öllu ómálefnaleg. Þannig hefur Björn Leví, þingmaður Pírata, farið langt út yfir öll hófleg mörk með lygabrigslum um Bjarna. Þá er beinlínis dapurlegt ef skopteiknari Fréttablaðsins telur sig geta vegið að Bjarna með því að bera hann ávirðingum sem var helsta haldreipi andstæðinga hans fyrir kosningar en reyndust einfaldlega púðurkerlingar.

 

Ríkisstjórnin samþykkti föstudaginn 3. mars 2017 nýjar reglur um starfshætti ríkisstjórnar. Er markmiðið með breytingunum sagt vera að stórefla efnislegan undirbúning fyrir ríkisstjórnarfundi með auknu samráði og samhæfingu á milli ráðherra. Helstu breytingar fela í sér að ríkisstjórnarfundir verða haldnir að jafnaði einu sinni í viku, á föstudögum, en ekki tvisvar eins og verið hefur. Frá mánudegi til fimmtudags verða mál sem tekin verða fyrir í ríkisstjórn á föstudegi á siglingu milli æðstu manna stjórnarráðsins.

 

Frá því að ég tók að fylgjast með fundum ríkisstjórna fyrir um það bil 70 árum hafa ráðherrar komið saman tvisvar í viku og látið sig hafa það að afgreiða mál, stór og smá, við miklu seinvirkara kerfi við miðlun upplýsinga en nú er við líði. Þetta breytist eins og annað og stuðlar líklega að enn meiri stjórnmálaró því að nú sitja fréttamenn um ráðherra eftir ríkisstjórnarfund einu sinni í viku en ekki tvisvar.