30.1.2017 14:00

Mánudagur 30. 01. 17

Halldór Guðmundsson er að hætta sem forstjóri Hörpu vegna starfs sem hann hefur fengið í Noregi. Mun hann stjórna þátttöku Norðmanna í bókamessunni í Frankfurt þegar þeim verður skipað þar í öndvegi. Af þessu tilefni er rætt við Halldór í Morgunblaðinu í dag. Hann er meðal annars spurður um neikvæðar hliðar á starfinu í Hörpu og lýsir Halldór þá baráttu sinni við ríki og borg vegna ofurhárra fasteignaskatta á Hörpu. Hann segir: „Þegar ég ræði við erlenda kollega mína þá skilur ekki nokkur maður af hverju stjórnvöld sýna þessa þrákelkni við að drekkja rekstri hússins í sköttum, því hann er alveg nógu erfiður samt.“

Þetta viðhorf erlendra manna kemur ekki á óvart. Þegar ég kom að því sem menntamálaráðherra að leggja grunn að hugmyndinni um Hörpu sem ráðstefnu- og tónlistarhús hafði ég ekki hugmyndaflug til að ímynda mér að það yrði mest íþyngjandi í rekstri hússins að Reykjavíkurborg vildi sem hæstar skatttekjur af því og nyti til þess aðstoðar þeirra sem búa til grunn fasteignaskattheimtu, ríkisstofnunarinnar Þjóðskrár.

Hæstiréttur dæmdi að reikna ætti fasteignagjöld út frá tekjuvirði hússins en ekki byggingarkostnaði eins og Þjóðskrá gerði. Dómur um þetta féll í febrúar 2016 og ber að endurgreiða Hörpu oftekna skatta. Eftir að hafa tapað málinu gerði Þjóðskrá sér lítið fyrir og bjó til nýjan skattflokk tónlistar- og ráðstefnuhúsa til að fasteignaskatturinn yrði 80% af því sem áður var. Spjótunum var sem sagt áfram sérstaklega beint að Hörpu. „Niðurstaðan er þessi sama: Harpa greiðir sex sinnum hærri fasteignagjöld en Egilshöll og eru þó þessi hús jafnstór. Hvaða vit er í þessu?“ spyr Halldór.

Hefur ákvörðun Þjóðskrár leitt til nýrra málaferla. „Borgin vill fá sem hæst fasteignagjöld í sinn hlut, en það er ríkisstofnun sem ákveður gjöldin, og allir aðilar vita að rekstur Hörpu stendur ekki undir þeim, og þar situr málið fast í einhverri furðulegustu hringekju sem ég hef séð á langri starfsævi,“ segir Halldór.

Að Reykjavíkurborg geri Hörpu að féþúfu með aðstoð Þjóðskrár og hvorugur aðili sætti sig í raun við niðurstöðu hæstaréttar heldur leiti nýrra leiða til ofurskatta er óskiljanlegt þegar litið er til forsögunnar og hugmynda að baki þessu húsi. Enn einkennilegra verður málið þegar hugað er mikilvægu þjónustuhlutverki Hörpu við alla ferðamennina sem heimsækja Reykjavík og fá þar til dæmis betri salernisaðstöðu fyrir almenning en annars staðar er í boði í miðborg Reykjavíkur.