22.1.2017 16:00

Sunnudagur 22. 01. 17

Í Washington er hafið kalt stríð milli Donalds Trumps og hans manna í Hvíta húsinu og fjölmiðlamanna. Trump segist raunar hafa átt í stöðugu stríði við fjölmiðlamenn en hann geti nú ekki orða bundist vegna ósanninda þeirra um fjölda fólks sem komið hafi til að hylla sig við innsetningarathöfnina 20. janúar.

Trump heimsótti höfuðstöðvar CIA laugardaginn 21. janúar. Í ræðu sem hann flutti þar sagði hann blaðamenn „meðal óheiðarlegustu manna í jarðríki“.  Um 1,5 milljón manna hefði verið við embættistöku sína föstudaginn 20. janúar þótt fjölmiðlar nefndu töluna 250.000. Þeir birtu falsaðar myndir.

Sean Spicer, blaðafulltrúi forsetans, sagði að fleiri hefðu komið til að fylgjast með innsetningu Trumps en nokkurri annarri í sögunni. NYT segir myndir sýna að þetta sé rangt. Spicer sagði að myndir sem teknar hefðu verið af mannfjöldanum við athöfnina hefðu af ásetningi verið birtar á þann veg að gera sem minnst úr mannfjöldanum fyrir framan þinghúsið í Washington.

Fyrir áhugamenn um íslensk stjórnmál er ekkert nýtt við deilur af þessu tagi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ákvað eftir deilur í apríl 2016 um hve margir hefðu komið á Austurvöll til að mótmæla Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni eftir Panama-þáttinn í sjónvarpinu að hætta að segja tölur um mannfjölda í miðborg Reykjavíkur við mótmæli eða aðrar athafnir. Vildi lögreglan réttilega ekki dragast inn í þras um þetta en tölurnar eru notaðar til að upphefja einstaklinga og málstað eða niðurlægja.

Deilurnar um mannfjöldann í Washington og flutningur frétta af þeim til dæmis í The New York Times sýnir að hart verður barist á fjölmiðlavettvangi milli manna Trumps og andstæðinga hans. Í frétt NYT segir meðal annars:

„Yfirlýsingar nýja forsetans og talsmanns hans voru gefnar þegar hundruð þúsunda manna mótmæltu Trump, mannhaf sem virtist drekkja fjöldanum sem kom saman daginn áður þegar hann var settur í embætti. Þetta var skýrt dæmi um fúkyrðaflaum og gremju við upphaf nýs stjórnartímabils forseta, á degi sem starfsmenn í Hvíta húsinu nota venjulega til að gefa tón til þjóðarsamstöðu og trausts í garð nýs leiðtoga.“

Þarna er greinilega stigið yfir þau mörk sem venjulega skilja að fréttir og skoðanir blaða. Á ritstjórn NYT er mönnum mikið í mun að láta ekki forsetann og menn hans setja sér neinar skorður. Þá hefur verið tilkynnt að Washington-skrifstofa blaðsins verði efld til að veita forsetanum meira aðhald. Ballið er rétt að byrja!