12.1.2017 16:15

Fimmtudagur 12. 01. 17

 Í dönskum blöðum segir frá því í dag að verð á hlutabréfum í lyfjafyrirtækinu Novo Nordisk hafi hríðfallið eftir blaðamannafund Donalds Trumps, verðandi forseta Bandaríkjanna, miðvikudaginn 11. janúar. Þar gagnrýndi hann lyfjafyrirtæki fyrir alltof háa verðlagningu á vörum sínum og sagði að hann mundi beita sér fyrir nýjum útboðsreglum til að lækka verðið. Segir á vefsíðu Berlingske Tidende að yfirlýsing Trumps hafi strax haft afleiðingar fyrir dönsk lyfjafyrirtæki sem selja framleiðslu sína til Bandaríkjanna.

Engar fréttir hafa birst hér á landi um hvort boðskapur Trumps hafi áhrif á lyfjafyrirtækin sem hér starfa. Trump vill draga úr frjálsum viðskiptum, að eigin sögn til að bæta efnahag Bandaríkjanna. Á sama tíma og hann sest að völdum eykst óvissan um hvernig hagað verður úrsögn Breta úr ESB en nú er tæpt hálft ár frá því að hún var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki hefur einu sinni verið skýrt frá hvaða markmið breska ríkisstjórnin setur sér í málinu.

Fréttablaðið birti forsíðufrétt í morgun um að ríkið hefði klúðrað kaupum á Jökulsárlóni. Var þetta haft eftir lögmanni aðila sem sættir sig ekki við að ríkið nýti forkaupsrétt sinn. Fyrir hádegi tilkynnti sýslumaðurinn á Suðurlandi að ríkið hefði ekki klúðrað neinu. Tímafrestur til að tilkynna að forkaupsrétturinn yrði nýttur hefði ekki verið útrunninn þegar tilkynning ríkisins barst.

Á tímanum sem leið frá því að Fréttablaðið birti hálfunna frétt sína og þar til sýslumaður hafði lokið athugun sinni höfðu nokkrir einstaklingar rokið upp til handa og fóta og hellt úr skálum reiði sinnar á athugasemdakerfi Fréttablaðsins.

Fréttin og athugasemdirnar við hana eru til marks um óþolið í samfélaginu í leitinni að sökudólgum til að skeyta skapi sínu á hvort sem menn vita eitthvað um viðkomandi mál eða ekki. Blaða- og fréttamennska snýst því miður æ meira um þetta og dregur það óskemmtilegan dilk á eftir sér í opinberum umræðum. Hér höfum við hvað skýrast kynnst þessu í átökum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrv. forsætisráðherra, og fréttastofu ríkisútvarpsins.

Í Bandaríkjunum taka menn síðasta blaðamannafund Donalds Trumps sem dæmi um að hann muni láta fjölmiðlamenn heyra það sé hann ósáttur við fréttir miðlanna. Trump gerði hróp að fréttamanni CNN og sagði stöð hans flytja gervifréttir, fake news, og vísaði þar til þess að stöðin varð fyrst meginmiðla til að segja frá leynilegri skýrslu um meintar ávirðingar Trumps í Rússlandi sem stjórnvöld þar kynnu að nota til að beit hann nauðung.