30.12.2016 9:45

Föstudagur 30. 12. 16

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins var lögð spurning fyrir forystufólk úr atvinnulífinu í tilefni af áramótunum. Efni hennar var á þá leið hvað stjórnvöld gætu gert á nýju ári til að bæta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja sem tilheyrðu samtökum svarenda. 

Efni spurningarinnar er í takt við þann tíðaranda sem setur sífellt meiri svip á almennt viðhorf. Kröfugerðina á hendur öðrum, einkum stjórnvöldum. Hún einkennir svo að segja allar fréttir, einkum ríkisútvarpsins. Stundum má velta fyrir sér hvort ekkert þyki fréttnæmt nema finna megi þann flöt á málinu að unnt sé að krefjast frekari opinberra afskipta. 

Innan opinbera kerfisins vísa menn gjarnan hver á annan. Nú segir til dæmis talsmaður opinbera hlutafélagsins Isavia, sem þekkt er fyrir leyndarhyggju, að vilji menn lenda á svonefndri neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli þurfi þeir ekki annað en biðja um leyfi í innanríkisráðuneytinu! Brautinni var lokað að gengnum dómi í hæstarétti. 

Í annan stað kvarta menn undan auknu regluveldi. Að hinu leytinu vilja menn aukna stýringu af opinberri hálfu.

Engin atvinnugrein hefur dafnað hraðar undanfarið en ferðaþjónustan. Hvert er helsta umkvörtunarefni Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, um áramótin? Hún sagði í ríkisútvarpinu í morgun:

„Hér kemur glæný atvinnugrein skoppandi inn á leikvöllinn og menn eru ekki tilbúnir að taka henni af fullri festu og alvöru og hafa trú á greininni sem heils árs atvinnugrein, sem er komin til að vera. Auðvitað hefði ég viljað sjá stjórnvöld taka miklu fastar á þeim verkefnum sem við blasa. Það þarf að tryggja betur innviðina. Það þarf stýringu. [...] Stjórnvöld hefðu þurft að bregðast við af meiri þunga mun fyrr.“

Í frétt á ruv.is um þetta samtal kemur ekki fram hvað stjórnvöld hefðu átt að gera fyrr. Leggja á skatt til að takmarka fjölda ferðamanna? Stýra komu þeirra til landsins á annan hátt? Setja þak á fjölda farþegavéla til landsins? Skattleggja hótelbyggingar eða húsbreytingar sérstaklega til að hefta fjölgun gististaða?

Þjóðlífið hefur lagað sig að gífurlegri fjölgun ferðamanna mun hraðar en nokkurn gat grunað. Að breyta þessari fjölgun í sérstakt vandamál fyrir stjórnvöld og krefjast meiri stýringar af þeirra hálfu er flótti frá meginviðfangsefni atvinnugreinarinnar: að leysa sín mál sjálf á eigin forsendum. Það hefur sannast að allt inngrip af hálfu stjórnvalda leiðir aðeins til mótmæla og deilna innan greinarinnar.