7.12.2016 12:15

Miðvikudagur 07. 12. 16

Þess var minnst í gær, 6. desember, að 100 ár voru liðin frá fæðingu Kristjáns Eldjárns, þriðja forseta íslenska lýðveldisins. Að því tilefni skrifaði ég grein um hann í Morgunblaðið að ósk ritstjóra þess og má lesa hana hér.

Á forsíðu Fréttablaðsinsbirtist í dag mynd af fjórum hæstaréttardómurum: Markúsi Sigurbjörnssyni, Viðari Má Matthíassyni, Ólafi Berki Þorvaldssyni og Eiríki Tómassyni á leið úr Dómkirkjunni í Alþingishúsið við þingsetningu í gær. Texti undir myndinni snýst um að þeir tengist Glitni banka á einn eða annan hátt. Myndin er liður ófrægingarherferð blaðsins á hendur hæstaréttardómurum. Aðalritstjóri blaðsins er mágkona verjanda Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem enn ræður hvað birtist á forsíðu blaðsins þegar sakamál tengd honum eru til meðferðar fyrir dómstólum.

Í Morgunblaðinu segir í morgun:

„Formaður Dómarafélags Íslands, Skúli Magnússon, segir óhjákvæmilegt að draga þá ályktun að gögn um hæstaréttardómara sem Kastljós og fréttastofa 365 hafa fjallað um komi frá Glitni. Í gögnunum kemur fram að fjórir hæstaréttardómarar, sem síðar hafi dæmt í málum tengd bankanum, hafi átt samanlagt 487 þúsund hluti í Glitni á árunum 2007-2008 sem hafi á þeim tíma verið um 14 milljóna króna virði.

„Þeir sem hafa lekið upplýsingunum vilja hafa áhrif á störf dómara og skapa tortryggni um störf þeirra,“ sagði Skúli við mbl.is í gær og bætti við að forsíða Fréttablaðsins [þriðjudaginn 6. desember], þar sem afrit af ökuskírteini Markúsar Sigurbjörnssonar, forseta Hæstaréttar, var meðal annars birt, væri vitnisburður um upplýsingaleka. Þeir sem stæðu að lekanum hlytu að ætla sér eitthvað meira með hann og væntanlega að hafa áhrif á meðferð mála.

„Þetta eru væntanlega einhver mál sem tengjast Glitni. Þetta eru upplýsingar sem stafa frá Glitni. Ég held að sú ályktun sé því miður óhjákvæmileg að þeir sem standa að þessum upplýsingaleka vilji hafa einhvers kona áhrif á störf dómstóla eða þá að skapa tortryggni um þeirra störf,“ segir Skúli.“

Í dag ræddi á ÍNN ég við Davíð Loga Sigurðsson um bók hans Ljósin á Dettifossi. Verður þátturinn frumsýndur á rás 20 kl. 20.00 í kvöld.