2.12.2016 10:00

Föstudagur 02. 12. 16

Þeir sem kjörnir eru á alþingi eru ekki neyddir til setu þar, þeir bjóða fram krafta sína til að stjórna landinu, að þeir sitji á alþingi sýnir að þeir njóta til þess trausts. Frumkrafa á hendur þingmönnum er að þeir komi sér saman um þá sem taka að sér að sinna framkvæmdavaldinu, mynda ríkisstjórn. Engu er líkara en of margir þeirra sem kjörnir voru í kosningunum 29. október átti sig ekki á þessu, þeir haldi að þeir hafi verið kjörnir til þátttöku í pólitískum samkvæmisleik um það hver eigi eða megi tala við hvern, í hvaða röð og hvenær.

Væri ástandið þannig að við blasti einhver vandi sem kallaði á alvarlegt áhættumat og menn hrykkju frá honum eftir að hafa kynnt sé hann mætti ef til vill finna efnisleg rök fyrir hiki við að setjast í ríkisstjórn með þessum flokknum eða hinum. Ástandið er alls ekki þannig. Fráfarandi ríkisstjórn skilar góðu búi hvernig sem á málið er litið.

Hér er um að ræða ríkt vantraust milli flokka og einstaklinga sem koma sér ekki saman, einkum vegna fordóma. Margt furðulegt verður til í þessum umræðum þingamannanna eins og hugmynd um að nú ætti bara að mynda þjóðstjórn. Í því felst í raun ekki annað en að færa samtölin sem nú fara fram án árangurs inn í fundarherbergi ríkisstjórnarinnar þar sem þeim yrði fram haldið án niðurstöðu.

Annars vegar blasir við að nýr þingmeirihluti verður að taka á því sem nú er farið að kenna við innviði samfélagsins, það er að veita aukið fé til heilbrigðismála, menntamála og samgöngumála. Hins vegar eru það gæluverkefnin: ESB-aðildin, stjórnarskrármálið, uppbrot fiskveiðistefnunnar og niðurbrot landbúnaðarins. Gæluverkefnin þvælast meira fyrir þeim sem ræða um stjórnarsamstarf en innviðamálin.

Sum gæluverkefnanna eru einfaldlega galin eins og talið um ESB-aðild þegar Brusselmenn eru á barmi taugaáfalls yfir að ESB-samstarfið sé að renna sitt skeið í núverandi mynd. Um stjórnarskárbreytingar verður að ríkja þjóðarsátt. Að eyðileggja fiskveiðistjórnarkerfið er aðför að efnahagslegum grunni þjóðarinnar, þá sem vilja gera það verður að sýna í réttu ljósi. Aðförin að landbúnaðinum er dæmd til að mistakast vilji menn láta rök og skynsemi ráða.