29.11.2016 10:15

Þriðjudagur 29. 11. 16

Viðbrögð vinstrisinna og Kúbuvina við fráfalli einræðisherrans Fidels Castros eru mörg sérkennileg. Sumir hafa lent í vandræðum eins og James Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Hann neyddist til að hætta við að fara til Kúbu og fylgja Fidel Castro til grafar vegna mikillar gagnrýni sem hann hlaut fyrir samúðarkveðju við fráfall einræðisherrans. Trudeau lýsti honum laugardaginn 26. nóvember sem „einstökum leiðtoga“ en sunnudaginn 27. nóvember viðurkenndi hann að Castro hefði verið einræðisherra og brást þannig við kröfu stjórnarandstæðinga um að hann yrði ekki við útförina. Síðar var tilkynnt að dagskrá hans rúmaði ekki för til Kúbu.

Guðmundur Andri Thorsson, dálkahöfundur Fréttablaðsins, skrifar af nokkrum söknuði um Castro í blaðið mánudaginn 28. nóvember. Raunar má skilja hann svo að það hafi ekki verið Castro sem brást heldur kommúnisminn. Guðmundur Andri segir:

„Kommúnisminn brást – en það gerir kapítalismann í sjálfu sér ekkert gáfulegri. Við þurfum alveg nýjar lausnir, nýjan þankagang, nýtt skipulag: annars ferst mannkynið og eftirlætur jörðina kakkalökkunum. [...]

Kapítalisminn er vissulega ómögulegur – en það gerir kommúnismann ekkert gáfulegri.“

Dálkahöfundurinn kallar þarna eftir einhverju nýju þjóðfélagskerfi, væntanlega til þess að menn á borð við Fidel Castro fái notið sín. Boðskapurinn mótast hins vegar af gamalkunnri samanburðarfræði: þótt kommúnisminn sé slæmur er kapítalisminn það líka. Í kalda stríðinu leiddu þessi fræði vinstrisinna gjarnan til þeirra niðurstöðu að Sovétríkin væru þó að lokum ívið betri en Bandaríkin.

Þessi afsökunaraðferð er greinilega ekki gengin sér til húðar hjá þeim á Vesturlöndum sem sætta sig ekki við eigið þjóðfélagskerfi og telja hlutverk sitt að boða einhverja aðra lausn á þjóðfélagsvandanum án þess þó að vita hver hún er.

Á Kúbu lögðu stjórnvöld fram bækur þar sem menn gátu skráð nöfn sín vegna dauða leiðtogans. Textinn til undirritunar hafði ekki að geyma samúðarkveðju heldur hátíðlega yfirlýsingu um hollustu við byltinguna og varðstöðu um hana. Almenningur var hvattur til taka undir „byltingarkenninguna“ sem Castro boðaði í ræðu árið 2000. „Við berjumst áfram fyrir þessum hugsjónum. Við sverjum þess heit!“ segir í textanum.

Fáir muna líklega hvaða kenningu Castro boðaði árið 2000. Í sjálfu sér skiptir það ekki máli fyrir þjóð í kerfi sem er komið í þrot.