27.11.2016 14:45

Sunnudagur 27. 11. 16

Stjórnarmyndunarviðræður halda áfram án þess að nokkur hafi umboð forseta til að mynda stjórn. Það breytir ekki skyldu stjórnmálamanna til að finna leið úr stjórnarkreppunni. Sumum finnst orðið „kreppa“ greinilega svo svakalegt að þeir telja ekki við hæfi að nota það um friðsamlega sambúð stjórnmálaforingja sem geta ekki komið sér saman um starfhæfan meirihluta á þingi að baki ríkisstjórn. Ef menn vilja ekki kalla þetta „kreppu“ verða þeir að finna annað orð.

Hér á sama við og um „starfsmannastjórann“ í Hvíta húsinu. Í Morgunblaðinu var orðið notað en sett í sviga á ensku chief of staff. Það er illa komið ef fjölmiðlamenn geta ekki komið sér saman um eitt gegnsætt orð um þennan háttsetta bandaríska embættismann. Til mín hefur verið send tillaga um að kalla hann einfaldlega „forsetaritara“ þótt í starfinu í Washington felist mun meira vald og mun meiri áhrif en hjá þeim sem gegnir þessu embætti í Reykjavík. Þá hef ég einnig séð tillögu um að kalla hann stallara.

Ég skila auðu í málinu.

Þessi orð eru skrifuð í háloftunum fyrir sunnan Ísland þegar flugstjóri Icelandair-vélarinnar Kötlu var að tilkynna okkur farþegum hans í flugini frá Brussel að tæpar 30 mínútur væru eftir til Keflavíkurflugvallar og við myndum lenda aðeins á undan áætlun.

Þannig lýkur þriggja nátta ánægjulegri ferð til Brussel. Í flugvélinni er nettenging og set ég þetta því inn á vefsíðuna um leið og vélin tekur að lækka sig.

ps eftir að ég komst í samband að nýju eftir heimkomu sendi orðhagur maður mér tillöguna „liðsstjóri“ um manninn við hliðina á Bandaríkjaforseta. Það er gegnsætt orð um hlutverk mannsins sem stjórnar liði forsetans. Það má reyna að innleiða það.

Rétt er að geta þess að við ferð um Brussel-flugvöll verður maður ekki var við annað en allt sé eðlilegt þrátt fyrir eyðilegginguna miklu í hryðjuverkinu í mars. Innkoma í flugstöðvarbygginguna er að vísu sérstök. Okkur var ekið að bílageymslu og farið er í gegnum hana áður en gengið er inn í sjálfa flugstöðvarbygginguna.

Þá má geta þess fyrir áhugamenn um skatta á ferðamenn að við brottför af hótelinu var innheimtur borgarskattur - city tax var sagt, 9,28 evrur á nóttu, 1,115 ísl. kr.