26.11.2016 17:00

Laugardagur 26. 11. 16

 

Mannfjöldinn á götum Brussel er mikill í dag. Jólamarkaðurinn var opnaður með pomp og prakt í gær. Uppljómaðir ísbirnir gengu fylktu liði frá kauphöllinni út á óperutorgið þar sem skautasvell kallar á gesti. Glögg er borið fram í kaffihúsum og á markaðnum.

Til hliðar og inni á meðal mannfjöldans ganga hermenn gráir fyrir járnum með hriðskotabyssur í fanginu. Viðbúnaðinn má rekja til hryðjuverkanna hér fyrr á árinu. Þau hræða þó grreinilega ekki fólk frá að koma saman.

Mikilli umferðaræð í hjarta borgarinnar hefur verið lokað fyrir bílaumferð. Það er ekki af varkárni vegna hættu á hryðjuverkum heldur vegna andúðar nýs borgarstjóra á einkabílnum sagði bílstjóri nokku og taldi þetta aðför að eðlilegu mannlífi í miðborginni.

Síðast þegar forseti Íslands lét hjá líða að veita nokkrum einum umboð til stjórnarmyndunar leiddi það til þess að Gunnar Thoroddsen klauf þinglokk Sjálfstæðismanna og myndaði veikburða stjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi.

Spennandi verður að sjá hvað gerist núna. Ákvörðun forsetans er gagnrýniverð nema honum hafi að öðrum kosti þótt sér skylt að fela þríeyki Pírata umboðið eða tvíhöfðanum Benedikt og Óttari umboðið. Forseta er alls ekki skylt að setja slíka hringekju af stað. Hann hefði átt að fela Bjarna Benediktssyni umboðið að nýju.

Í Morgunblaðinu birtir Agnes Bragadóttir fréttaskýringu sem dregur aðra mynd af tilraun Katrínar Jakobsdóttur (VG) til að mynda stjórn en ummæli um farsæla forystu hennar gáfu til kynna áður en upp úr slitnaði.

Það hefur fallið á silfur Katrínar í þessum sviptingum. Hitt er þó enn undarlegra að Píratar skuli enn hafa Birgittu Jónsdóttur sem helsta talsmann sinn. Hafi kosningarnar nú orðið til að hafa varanleg áhrif á stjórnmálastarf í landinu snýr það að Pírötum. Þeir ná aldrei að hafa annað en yfirlýsingaáhrif á framvindu stjórnmála á meðan Birgitta er í forystu þeirra. Annaðhvort velta þeir henni úr sessi eða verða áfram í raun áhrifalausir nema í fréttatímum.

Sagt er frá því að útlendingayfirvöld séu tekin til við að beita reglunni um tveggja ára bann við endurkomu á Schengen-svæðið við afgreiðslu mála hælisleitenda frá Makedóníu og Albaníu. Það var tími til kominn og í fréttum ríkisútvarpsins var sagt að 40 hefðu dregið hælisumsókn sína til baka.