25.11.2016 14:15

Föstudagur 25. 11. 16

Í dag rifjaðist upp fyrir mér þegar ég skrapp í heimsókn í höfuðstöðvar NATO í Brussel að um hálf öld er síðan ég kom þangað fyrst. NATO flutti þá frá París til Brussel í búðir belgíska flughersins enda bar þetta brátt að vegna ákvörðunar Charles de Gaulles Frakklandsforseta sem vildi árétta sjálfstæði Frakka á þennan hátt og setja skil á milli sín og Bandaríkjastjórnar á skýrari hátt en áður.

Bandalagið hefur starfað á þessum stað síðan í lágreistum byggingum. Aðildarríkjunum hefur fjölgað úr 12 í 28 (brátt 29) og húsnæðisvandinn hefur verið leystur með því að bæta við fleiri 3ja hæða einingum og lengja gangana. Anddyrið er enn sama og áður, öryggisgæsla við inngöngu í höfuðstöðvarnar hefur þó verið aukin til muna. Gestir mega til dæmis ekki taka með sér farsíma inn í bygginguna.

Handan við götuna sem áður var hraðbraut en er nú orðin að einskonar innan-borgargötu með sporvögnum er nú verið að leggja lokahönd á nýjar byggingar sem eiga að hýsa NATO. Þegar spurt er hvenær verði flutt vill enginn nefna ákveðna dagsetningu. Svo oft hafi dagsetningar ekki staðist en það verði væntanlega næsta sumar.

Í NATO eins og annars staðar ræða menn hvaða breytingar verða vegna sigurs Donalds Trumps. Enginn efast um að Bandaríkjamenn verði áfram þungamiðjuþjóð innan bandalagsins. Óvissuþættir tengjast þó fleiru: Brexit, þjóðaratkvæðagreiðslu á Ítalíu, forsetakosningum í Frakklandi, þingkosningum í Þýskalandi og síðast en ekki síst ástandinu í Tyrklandi.

Nú er samtal okkar dr. Vilborgar Auðar Ísleifsdóttur sagnfræðings komið á netið eins og sjá má hér.

Það var frumsýnt á ÍNN miðvikudaginn 23. nóvember og fjallar um bókina Land föður míns sem Vilborg þýddi og gefin er út af Uglu.