23.11.2016 11:00

Miðvikudagur 23. 11. 16

Utanríkisráðherrar EFTA-landanna, Íslands, Liechtensteins, Noregs og Sviss hittust á fundi í Genf mánudaginn 21. nóvember. Eftir fundinn er ljóst að ríkisstjórnir Íslands og Sviss eru jákvæðari fyrir aðild Breta að EFTA eftir útgöngu þeirra úr ESB en Norðmenn. Johann Schneider-Amman, forseti Sviss, sagði að vildu Bretar nálgast EFTA með aðild í huga væru Svisslendingar tilbúnir að ræða málið.

Lilja D. Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sagði að loknum fundinum mikilvægt að EFTA-ríkin yrðu samstíga og létu ekki ólíka hagsmuni eða samkeppni sín á milli hafa áhrif á samstarfið. Fyrir Ísland væru samskiptin og viðskiptin við Bretland eitt allra mikilvægasta utanríkismálið. Áður hefur Lilja lýst jákvæðu viðhorfi til aðildar Breta að EFTA og tekið annan pól í hæðina en norskir ráðherrar.

Tvíræðni Norðmanna birtist enn eftir fundinn í Genf og kann Lilja að vísa til hennar þegar hún áréttar nauðsyn þess að allir innan EFTA séu samstiga. Monica Mæland, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noreg, sagði eftir Genfar-fundinn að Bretar væru mikilvægasta viðskiptaþjóð Norðmanna sem vildu viðhalda eins góðu sambandi við þá og unnt væri. Bretum yrði best borgið í eins nánum tengslum við innri markað ESB og verða mætti. Norðmönnum kæmi soft Brexit – mjúk útganga – best. Þeir hefðu ekki lýst neinum áhuga á EFTA-aðild. Sæktu þeir um hana yrði málið að sjálfsögðu rætt.

Aðild að EFTA er forsenda aðildar Breta að EES-samningnum. Sumir fréttaskýrendur gera því skóna að Norðmenn séu svona tregir í taumi þegar kemur að EFTA-aðild Breta vegna þess að þeir vilji ekki missa stöðuna sem stærsti og áhrifamesti aðilinn að EFTA-hlið EES-samningsins (Sviss er ekki í EES).

Hér skal ekki gert lítið úr slíkum þjóðarmetnaði. Hitt getur einnig verið skýring að meðal ráðamanna í Noregi og innan norska stjórnarráðsins gæti ríks vilja til náins sambands við ESB og norskir ESB-vinir vilji einfaldlega ekki segja eða gera neitt sem Brusselmenn telja að veiki stöðu sína gagnvart Bretum í komandi Brexit-viðræðum.

Breski blaðamaðurinn Christopher Booker ítrekaði í grein í The Sunday Telegraph 20. nóvember þá skoðun að eftir brottför úr ESB gætu Bretar aðeins staðið í viðskiptum „innan“ innri markaðarins á sama hátt og þeir gera nú með aðild að EES. Öryggisákvæði EES-samningsins veittu Bretum rétt til að hafa stjórn á fjölda innflytjenda. Booker er fróðastur breskra dálkahöfunda um tengsl Bretlands og ESB.