12.11.2016 16:15

Laugardagur 12. 11. 16

Sigur Trumps í bandarísku forsetakosningunum hefur víða áhrif. Hann leiddi meðal annars til þess í gær að okkur áskrifendum The New York Times barst bréf undirritað af Arthur O. Sulzberger Jr. útgefanda og Dean Baquet aðalritstjóra blaðsins.

Erindi þeirra við mig og aðra áskrifendur er að fullvissa okkur um að blaðið og starfsmenn þessi muni eftir allt sem birt var fyrir kosningarnar og úrslit þeirra rededicate ourselves to the fundamental mission of Times journalism. That is to report America and the world honestly, without fear or favor, striving always to understand and reflect all political perspectives and life experiences in the stories that we bring to you.

Þeir gefa sem sagt loforð um bót og betrun í anda grundvallarhlutverks blaðsins, að segja fréttir frá Bandaríkjunum og heiminum öllum án ótta eða greiðasemi í viðleitni sinni til að skilja og skýra frá öllum stjórnmálaviðhorfum og lífsreynslu í fréttum og frásögnum sem blaðið flytur.

Eftir sigur Trumps risu margir upp og andmæltu fréttaflutningi NYT. Hann hefði verið hlutdrægur gegn Trump og einhliða. Undir lok bréfsins leggja þeir áherslu á gildi þess að njóta hollustu og trausts áskrifenda sinna og þakka þeim loks fyrir að halda tryggð við blaðið.

Bréfið er ekki ritað að ástæðulausu. Áskrifendur mótmæltu með uppsögnum og reiðilegum bréfum á samfélagsmiðlum.

Í fréttum um þetta bréf kemur fram að Dean Baquet gaf ritstjórn og blaðamönnum NYT skotleyfi á Trump. Innan blaðsins ríkti sá andi að hann væri óhæfur til að verða forseti Bandaríkjanna og þeirri skoðun var leynt og ljóst haldið að lesendum, þó undir yfirbragði þess að gætt væri hlutlægni og óhlutdrægni.

Við sjáum af viðbrögðum ráðamanna á fjölmiðlum hér á landi og hve illa þeir almennt bregðast við gagnrýni um hlutrdrægni hve stórt skref það var fyrir útgefanda og ritstjóra NYT að skrifa þetta bréf.

Nú er í tísku að segja þennan eða hinn hópinn og helst stjórnmálamenn lifa „í blöðru“. Þetta á ekki síður við um fjölmiðlamenn en aðra og í Bandaríkjunum snerust blöð sem hafa verið höll undir repúblíkana eins lengi og elstu menn muna nú gegn Trump.

Fyrstu yfirlýsingar Trumps nú um helgina benda til að hann mildi mjög afstöðu sína til manna og málefna miðað við orð sem féllu í kosningabaráttunni. Pólitíska fjörið er kannski rétt að byrja og enn mun reyna mjög á fjölmiðlamenn.