4.11.2016 16:00

Föstudagur 04. 11. 16

Samtal mitt við Hannes Hólmstein Gissurarson á ÍNN er komið á netið og má sjá hér.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er flennifrétt þess efnis að Benedikt Jóhannesson, formaður sjö-manna þingflokksins Viðreisnar, verði forsætisráðherra. Benedikt sagði við Vísi (hluta af 365 eins og Fréttablaðið) eftir að forsíðufréttin birtist og vakti furðu og umtal margra að hann kannaðist ekkert við að hann yrði forsætisráðherra í fjögurra flokka ríkisstjórn Viðreisnar, Bjartrar framtíðar (BF), vinstri grænna (VG) og Sjálfstæðisflokksins.

Síðar sagði í frétt á Vísi:

„Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segir að það sé ekkert launungarmál að Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar vilji leiða stjórnarmyndunarviðræður. Það þurfi þó ekki endilega að fara saman við það að verða forsætisráðherra. [...]

„Það er ekkert launungarmál að Benedikt hefur lýst því yfir opinberlega að hann vilji leiða þessar viðræður,“ segir Katrín [...]

Aðspurð hvort að þessi hugmynd hafi verið rædd á fundinum, að Benedikt myndi leiða ríkisstjórn, segist Katrín ekki vilja fara út í það hvað rætt var á fundinum þar sem hann hafi verið óformlegur.“

Hér fer ekkert á milli mála. Þeir sem ræða við Benedikt Jóhannesson formlega eða óformlega átta sig á að hann brennur í skinninu eftir að verða forsætisráðherra. Hann hefur greinilega samið við Óttarr Proppé, formann BF, að nefna sitt nafn jafnan þegar spurningin um næsta forsætisráðherra vaknar og fer Óttarr sem einskonar töskuberi Benedikts á fundi vegna stjórnarmyndunarinnar til að halda fram hans hlut.

Að það verði forsíðufrétt í Fréttablaðinu að Benedikt sé til umræðu sem forsætisráðherra stafar ekki af skáldlegum tilþrifum á ritstjórn blaðsins undir forystu Kristínar Þorsteinsdóttur eða Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Að baki fréttinni hljóta að búa heimildarmenn sem blaðið treystir og telur að fari ekki með pólitískt fleipur.

Að fréttin birtist einmitt núna er til þess fallið að grafa undan tilraunum Bjarna Benediktssonar í umboði forseta Íslands. Fréttin sýnir ekkert annað en framhald af þrýstingi Benedikts og hans manna á að hann fái umboðið frá forseta Íslands. Hvort forseti stenst þrýstinginn kemur í ljós.

Þegar menn horfðust í augu við það eftir valdabrölt Birgittu Jónsdóttur og Pírata að hugsanlega yrði til ríkisstjórn með aðild eða undir forystu Pírata tók fylgið að hrynja af þeim. Þótt Viðreisn sé á allt öðrum báti en Píratar er líklegt að misráðið tal um forsætisráherraembættið í höndum Benedikts Jóhannessonar verði ekki til að styrkja stöðu Viðreisnar.