31.10.2016 14:30

Mánudagur 31. 10. 16

Margar skrýtnar fréttir hafa birst um ummæli manna að loknum kosningum. Í dag var til dæmis sagt frá því í Fréttablaðinu að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, teldi að flokknum hefði gengið betur í kosningunum laugardaginn 29. október undir sinni stjórn en arftaka síns, Sigurðar Inga Jóhannssonar. Sigmundur Davíð segir í blaðinu:

„Ég var búinn að leggja drög að því hvernig með öflugri kosningabaráttu við hefðum getað aukið fylgið um kannski fjögur prósentustig og svo kannski tvö í viðbót í kosningunum sjálfum. Við hefðum þá getað gert ráð fyrir 18 til 19 prósenta fylgi.“ 

Í þingkosningunum árið 2013 fékk Framsóknarflokkurinn 24,4% atkvæða og 19 þingmenn. Nú fékk hann 11,5% og átta þingmenn. Sigmundur Davíð baðst lausnar sem forsætisráðherra 5. apríl 2016 og um þær mundir mældist fylgi Framsóknarflokksins 7% í könnun hjá Gallup. Hann tapaði í formannskjöri fyrir Sigurði Inga á flokksþingi sunnudaginn 2. október 2016 en frá 10. september 2016 lá ljóst fyrir að stefndi í formannsátök milli þeirra. Sigmundur Davíð lýsti sig andvígan þingkosningum nú og vildi að ríkisstjórnin sæti út kjörtímabilið. Eftir kosningarnar segist hann hafa haft sigurplan á hendi.

Í ágúst 2015 þegar Birgitta Jónsdóttir sagði á aðalfundi Pírata að hún mundi rjúfa heit sitt um að bjóða sig ekki fram í þriðja sinn með því skilyrði að gerður yrði stjórnarsáttmáli fyrir kosningar. Í janúar 2016 mældist fylgi Pírata 42% í könnun Fréttablaðsins. Síðan tók fylgið að minnka og þegar Sjálfstæðisflokkurinn mældist stærri en Píratar kveinkaði Birgitta sér undan að þurfa að skýra fylgisminnkunina fyrir erlendum blaðamönnum.

Erlendir blaðamenn virtust leggja traust sitt á niðurstöður kannana þegar þeir ákváðu að bóka flug til Íslands vegna þingkosninganna. Þeir ætluðu að segja frá stórsigri Birgittu og félaga. Kosningarnar fóru vissulega á þann veg að Píratar juku fylgi sitt frá kosningunum 2013 og fengu nú 14,5%. Birgitta sagðist ánægð enda hefði hún spáð 10 til 15% fylgi! Eftir kosningar er samdóma álit að Píratar hafi tapað kosningabaráttunni, ekki síst vegna tilraunaviðræðna um stjórnarmyndun að ósk eða kröfu Birgittu. 

Segja verður þá sögu eins og hún er að Birgittu eru ákaflega mislagðar hendur þegar kemur að strategíu og framkvæmd hennar. Best líkar henni að geta sagt eitt í dag og annað á morgun. Nú segist hún ætla að verja einhverja minnihlutastjórn á þingi. Gamalkunna tuggan um að hér eigi að mynda minnihlutastjórn af því að þær starfi stundum annars staðar á Norðurlöndunum er komin á kreik að nýju. Það yrði veik stjórn sem setti traust sitt á Pírata.