30.10.2016 10:40

Sunnudagur 30. 10. 16

 

Að Samfylkingin skuli ekki fá nema þrjá þingmenn (alla af landsbyggðinni) út á að hafa fengið einn kjörinn í norðausturkjördæmi en enga þingmenn hvorki í Reykjavík né í suðvesturkjördæmi eru stærstu tíðindi þingkosninganna í gær. Úrslitin sanna réttmæti þess að efna til kosninga nú til að fá úr því skorið hverjum þjóðin treysti til að leiða hana áfram til efnahagslegra framfara. Flokknum sem tók vitlausustu stefnuna eftir hrun með kröfunni um að rífa stjórnarskrána og ganga í Evrópusambandið hefur verið kastað út af þingi. Flokksformaðurinn situr svo í rústunum og á þá von eina að unnt sé að halda sigurvegara kosninganna, Sjálfstæðisflokknum, utan ríkisstjórnar.

Allt þar til síðsumars vonuðu sumir álitsgjafar að framboð undir merkjum Viðreisnar gengi að Sjálfstæðisflokknum dauðum – hann fengi ekki nægilega mikið fylgi til að verða áfram stórveldið á íslenskum stjórnmálavettvangi. Með þetta í huga er góður árangur Sjálfstæðisflokksins sérstakt fagnaðarefni. Hann fékk alls 29% atkvæða, er stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum landsins og bætti við sig tveimur þingmönnum í 21. Bestur er árangur flokksins í kjördæmi Bjarna Benediktssonar flokksformanns rúm 33%. Lakast er fylgið í Reykjavíkurkjördæmunum. Sannast enn að gjörbylting er óhjákvæmileg í starfi sjálfstæðismanna í Reykjavík. Að höfuðborgin skuli vera dragbítur í kosningum staðfestir að þar verður flokkurinn að taka sér tak.

Píratar juku verulega fylgi sitt í kosningunum. Þeir eru hins vegar langt frá settu marki og digurbarkalegt tal Birgittu Jónsdóttur, leiðtoga þeirra, fyrir kosningar er aðeins til marks um pólitískt grobb og ístöðuleysi. Var ágætt að margir erlendir fjölmiðlamenn komu hingað til að kynnast að eigin raun hvers konar félagsskapur Píratar eru, sjá þeir þó aðeins toppinn á ísjakanum.

Sigurður Ingi Jóhannsson biðst í dag lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt sem falið verður að starfa áfram sem starfsstjórn. Slík stjórn hefur lagt fram fjárlagafrumvarp. Forsætisráðherra starfsstjórnar flytur þó ekki stefnuræðu í upphafi þings.

Framsóknarflokkurinn fór ekki eins illa út úr kosningunum og Samfylkingin en illa samt. Hann og Sjálfstæðisflokkurinn hafa nú aðeins 29 þingmenn á þingi í stað 38 áður. Þeir gætu setið saman í minnihlutastjórn með hlutleysi Viðreisnar, BF eða VG eða myndað meirihlutastjórn með einhverjum þeirra. Hvorki Samfylking né Píratar vilja vinna með Sjálfstæðismönnum. Sjálfstæðisflokkur og VG hafa samtals 31 þingmann á þingi. Samstarf þeirra hlýtur að koma til álita með stuðningi þriðja flokks.