18.10.2016 11:15

Þriðjudagur 18. 10. 16

 

Hér var í gær vísað til túlkunar Baldurs Þórhallssonar prófessors á útspili Pírata um helgina. Hann taldi það marka merkileg þáttaskil þótt Pírötum mistækist að gera „stjórnarsáttmála“ fyrir kosningar. Frá því að þessi orð prófessorsins og annarra féllu um stjórnarmyndun Pírata fyrir kosningar hefur komið í ljós að eitthvað annað vakir fyrir Pírötum. Smári McCarthy, umboðsmaður Pírata ásamt Birgittu, sagði í samtali við Eyjuna í gær:

„Við erum ekki að tala um kosningabandalag, við erum að tala um að ákveðnir flokkar sameinist um ákveðið samstarf. Það þýðir ekki að þessi flokkar fari saman í stjórn eða eitthvað svoleiðis, það verður síðan að koma í ljós.“

Hér sannast enn að leiðtogar Pírata kjósa að tala út og suður og velja síðan þá skoðun sem þeim finnst henta best hverju sinni. Óvíst er að prófessor Baldur eða aðrir sem tóku að ræða um væntanlegan stjórnarsáttmála Pírata hafi lesið bréfið sem umboðsmenn Pírata sendu öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki sunnudaginn 16. október. Þar segir í upphafi:

„Fyrir hönd Pírata óskum við eftir formlegum fundi við þig á næstu dögum til að ræða hugsanlega samvinnufleti fyrir næsta kjörtímabil. Markmið fundarins verður að átta sig á því hvar okkar flokkar geta unnið saman til að greiða leið þingsins strax að loknum kosningum, óháð niðurstöðum kosninga.“

Fyrir utan klaufalegt orðalag er illskiljanlegt við hvað er átt með samstarfi „til að greiða leið þingsins strax að loknum kosningum“.  Hvað gera stjórnmálamenn til að „greiða leið þingsins“?  Getur einhver prófessor skýrt það? Þýðir þetta að gerður skuli stjórnarsáttmáli fyrir kosningar?

Það verður enginn stjórnarsáttmáli gerður fyrir kosningar eins og Birgitta lofaði. Upphlaupið á sunnudag var hrein sýndarmennska eins og annað sem frá henni kemur. Nú dröslast Píratar með þá yfirlýsingu hennar að næsta kjörtímabil verði aðeins níu mánuðir. Um það segir Smári umboðsmaður á Eyjunni:

„Það hefur verið reynt að hengja okkur í tali um að þetta eigi að vera níu mánuðir, það er ekki endilega markmiðið út af fyrir sig. Níu mánuðir væri kannski fínt, kannski væri átján fínt, ég veit það ekki. Bara á meðan við gerum þetta á réttum tíma.“

Þetta er köld kveðja Smára til Birgittu – það hefur enginn reynt að hengja Pírata í tali um níu mánuðina nema sjálf Birgitta.