8.10.2016 18:15

Laugardagur 08. 10. 16

Í dag var efnt til fundar í hátíðarsal Háskóla Íslands undir fyrirsögninni: Arfleifð og áhrif leiðtogafundarins og er þar vísað til fundar Ronalds Reagans og Mikhaíls Gorbatsjovs í Höfða fyrir réttum 30 árum í Höfða. Tilefnið hefur verið notað af Reykjavíkurborg og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands til að stofna friðarsetur kennt við Höfða.

Fyrir réttum 30 árum var ég aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins og fréttastjóri erlendra frétta og kom því í minn hlut að hafa daglega stjórn á fréttaskrifum blaðsins um leiðtogafundinn auk þess sem blaðið hélt úti mikilli þjónustu fyrir erlenda blaðamenn sem komu til landsins vegna fundarins. Þetta er mjög eftirminnilegur tími eins og rifjað var upp á fundinum í dag þar sem frú Vigdís Finnbogadóttir sagði frá samskiptum sínum við Reagan og Gorbatsjov og yngra fólk, sem enn var í skóla 1986, rifjaði upp minningar sínar í tengslum við fundinn.

Eftir kaffihlé kom sína Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, og flutti ávarp í hátíðarsalnum. Hann minnti okkur á að enn væru 15.000 kjarnorkuvopn til í heiminum svo að Höfða-markmiðið um upprætingu þessara vopna ætti enn langt í land.

Í dag bárust einmitt fréttir um að Rússar hefðu flutt skotflaugar fyrir kjarnorkuvopn til hólmlendu sinnar, Kaliningrad, sem er við Eystrasalt milli Póllands og Liháens. Rússneskir ráðamenn minna nú æ oftar á að þeir ráði yfir kjarnorkuvopnum. Treysta þeir meira á þau nú en áður innan herafla síns vegna þess hve vanbúnir þeir eru í venjulegum herafla miðað við það sem var.

Ojars Kalnins, formaður utanríkismálanefndar þings Lettlands, minnti okkur á það á Varðbergs-ráðstefnunni fimmtudaginn 6. október að eftir innlimun Rússa á Krímskaga hefði afstaðan til Rússa gjörbreyst á verri veg í öllum nágrannaríkjum þeirra. Þessar tilfæringar þeirra með skotflaugarnar í Kaliningrad eru aðeins enn ein áminning af hálfu Rússa um að taka verði ríkara tillit til krafna þeirra í Sýrlandi og gagnvart Úkraínu.

Í krafti hernaðarmáttar og kjarnorkuvopna sat Gorbatsjov andspænis Reagan í Höfða og lét eins og hann stæði jafnfætis Bandaríkjamönnum þrátt fyrir ónýtt hagkerfi og útbrunnið þjóðskipulag. Reagan gaf ekkert eftir heldur sagðist halda sínu striki varðandi eldflaugavarnir og hátæknivopn. Sovétmenn áttu engin svör við því og ríki þeirra varð að engu. Kalda stríðinu lauk en nú 25 árum eftir lyktir þess vill Vladimír Pútín að tekið sé mark á sér vegna kjarnavopna og skotflauga sinna.