2.10.2016 19:45

Sunnudagur 02. 10. 16

Nú er hálft ár liðið frá því að þingflokkur framsóknarmanna tilkynnti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að hann nyti ekki lengur trausts sem forsætisráðherra. Þá vildu þingmenn flokksins ekki ganga gegn honum sem formanni flokksins. Það gerðist ekki opinberlega fyrr en miðstjórnarfundi á Akureyri 10. september 2016. Þá hrundi þagnarmúrinn í kringum vandræðin vegna Sigmundar Davíðs í flokknum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður flokksins og forsætisráðherra, bauð sig opinberlega fram gegn Sigmundi Davíð sem formanni föstudaginn 23. september, fyrir 9 dögum og í dag 2. október var hann kjörinn formaður Framsóknarflokksins með 370 atkvæðum, 52,7% greiddra atkvæða. Sigmundur Davíð hlaut 329 atkvæði 46,8% greiddra atkvæða. Eygló Harðardóttir, fráfarandi ritari flokksins, dró framboð sitt til varaformanns til baka. Lilja D. Alfreðsdóttir utanríkisráðherra var kjörin varaformaður með 392 atkvæðum eða 95,8% af 402 gildum atkvæðum í kosningunni. Gunnar Bragi Sveinsson ráðherra dró framboð sitt í sæti ritara til baka og var Jón Björn Hákonarson, sveitarstjórnarmaður frá Neskaupstað, sjálfkjörinn.

Sé litið yfir sex mánuðina sem liðnir eru frá því að þingflokkur framsóknarmanna skipti um forsætisráðherra er augljóst að Sigurður Ingi hefur haldið betur á spilum sínum en Sigmundur Davíð bæði inn á við í Framsóknarflokknum og út á við gagnvart þjóðinni.

Alltaf þegar Sigmundur Davíð hefur látið að sér kveða magnast órói innan Framsóknarflokksims sem utan. Þótt flokksmenn hans og aðrir beri lof á Sigmund Davíð fyrir það sem hann hefur vel gert er hrjúf hlið á stjórnmálastarfi hans sem veldur greinilega samskiptavanda. Þessi hlið magnast vegna átaka hans við fjölmiðlamenn og raunar fleiri því að réttmætt er spyrja: Hvers vegna skyldu allir segja ósatt þegar Sigmundur Davíð á hlut að máli?

Sigmundur Davíð fór þegjandi af flokksþinginu og án þess að hafa aðra formlega stöðu innan flokksins en sem þingmaður og efsti maður á listanum í norðausturkjördæmi.

Hvað sem öðru líður er líklegt að auðveldara verði fyrir aðra flokka að starfa með Framsóknarflokknum eftir brottför Sigmundar Davíðs úr formannsstólnum að sama skapi er líklegt að hann geti sem þingmaður valdið erfiðleikum innan Framsóknarflokksins og gert hann ólíklegri til stjórnarasamstarfs í ríkisstjórn sem styðst við tæpan þingmeirihluta.