25.9.2016 12:00

Sunnudagur 25. 09. 16

Af ályktun flokksráðs- og formannafundar Sjálfstæðisflokksins í gær verður ráðið að flokkurinn ætlar að nýta gífurlega mikinn árangur sem náðst hefur í efnahagsmálum undir hans stjórn til þess að bæta innviði íslensks samfélags á öllum sviðum. Flokkurinn ætlar ekki að íþyngja borgurum landsins með nýjum álögum.

Styrkur Sjálfstæðisflokksins í áranna rás hefur ráðist af forystu hans við að bæta hag þjóðarinnar, huga að samfélagslegum málefnum, án þess að þrengja svo að svigrúmi einstaklinga að þeir leggi árár í bát. Stjórnartíð Jóhönnu og Steingríms J. einkenndist annars vegar af ofurtrú á ríkisforsjá, sem birtist meðal annars af tregðu til að afnema fjármagnshöftin, og hins vegar af ofurskattheimtu sem lamaði framtakssemi einstaklinga og fyrirtækja. 

Hvarvetna sem þar sem þjóðir hafa kynnst stefnu á borð við þá sem flokkarnir til vinstri við Sjálfstæðisflokkinn boða nú fyrir kosningarnar hefur orðið efnahagslegur kyrkingur sem leiðir fyrst til stöðnunar og síðan aukin atvinnuleysis. 

Össur Skarphéðinsson gerist nú talsmaður svartsýni íslenskra vinstrisinna. Hann hefur setið of lengi á þingi til að nenna að taka þátt í þingstörfum nema þegar sér ástæðu til að belgja sig í einhverju gælumáli sínu. Nú síðast var það út af EES-skuldbindingum sem hann sagði brjóta í bága við stjórnarskrána. Var þetta innlegg til að ýta við því stefnumáli að setja verði í stjórnarskrána ákvæði um framsal fullveldisins til alþjóðastofnana. Skortur á slíku ákvæði hindraði þó ekki Össur í að sækja um aðild að ESB þótt hann tali núna eins og sérlegur varðmaður stjórnarskrárinnar.

Í ályktun flokksráðs- og formannafundar sjálfstæðismanna frá í gær segir meðal annars: „Við viljum almenningsvæða banka. Rétt er að almenningur fái drjúgan hlut eignar sinnar milliliðalaust í hendur samhliða skráningu bankanna á markað.“

Þetta þolir Össur ekki og tekur til við að mála skrattann á veginn eins og hann gerði í Iceasave-málinu forðum þegar hann taldi Íslendingum helst til bjargar að borga Hollendingum og Bretum því að annars kæmust þeir ekki í ESB. 

Nú lætur Össur eins og sjálfstæðismenn séu andvígir skiptingu banka svo að þeir sinni ekki í senn fjárfestingum og viðskiptaþjónustu. Um að huga að slíkri skiptingu hefur verið ályktað á landsfundi Sjálfstæðisflokksins eftir bankahrunið. Allt annað sem Össur segir í reiðilestri sínum vegna almenningsvæðingar bankanna er sama marki brennt: Innantómur vaðall.