22.9.2016 12:30

Fimmtudagur 22. 09. 16

Viðtal mitt á ÍNN við Þórarin Tyrfingsson, yfirlækni á Vogi, er komið á netið og má sjá það hér

 Sú sérkennilega staða er í útlendingamálum hér, að hælisumsóknir margfaldast á sama tíma og þeim snarfækkar í nágrannalöndunum. Þessi staðreynd birtist til dæmis í frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt var fram miðvikudaginn 21. september. Í greinargerð frumvarpsins segir:

„Útlendingastofnun hefur áætlað að hælisumsóknir gætu orðið á bilinu 600-1.000 samanborið við 375 árið 2015. Í því sambandi er lagt til að veita annars vegar 600 m.kr. aukna fjárheimild vegna kostnaðar við uppihald hælisleitenda hér á landi og hins vegar 200 m.kr., m.a. til Útlendingastofnunar og Kærunefndar útlendingamála, vegna aukinnar umsýslu og til að hraða málsmeðferð hælisumsókna.“

Síðar í sömu greinargerð segir:

„Hælisleitendur.

1.01 Hælisleitendur. Samtals m.krögð til 640 m.kr. hækkun á þessum lið. Annars vegar er óskað eftir 600 m.kr. viðbótarframlagi á liðnum vegna verulegrar fjölgunar hælisleitenda umfram forsendur fjárlaga. Kostnaður fjárlagaliðarins hefur aukist verulega síðustu árin, frá því að vera 60 m.kr. árið 2011 í 757 m.kr. árið 2015 en þá var fjöldi hælisleitenda 354. Áætlað er að fjöldi hælisleitenda verði um 700 á yfirstandandi ári, sem er tæp 98% aukning frá fyrra ári, og að heildarútgjöldin verði nærri 1.200 m.kr. eða meira en tvöfalt hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Hins vegar er lögð til 40 m.kr. hækkun á framlagi til talsmannaþjónustu Rauða kross Íslands til að standa undir kostnaði við fjölgun talsmanna vegna aukins fjölda umsókna. Er þessi ráðstöfun hluti af sérstakri ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að veita alls 200 m.kr. framlag til ýmissa stofnana og verkefna til að bregðast við stórauknum fjölda umsókna um hæli á Íslandi.“

Unnt er að stemma stigu við komu stærsta hluta þessa fólks til landsins með hertu eftirliti og breyttu skipulagi á Keflavíkurflugvelli og Seyðisfirði. Á því er hins vegar ekki áhugi meðal háttvirtra kjósenda ef marka má skoðanakönnun um forgangsmál og þingmenn virðast frekar vilja fleiri en færri hælisleitendur. Að stjórnmálin skuli vera svona langt á eftir veruleikanum í þessu efni er ekki bundið við Ísland eins og til dæmis má sjá á vandræðum Angelu Merkel