21.9.2016 15:00

Miðvikudagur 21. 09. 16

Í gær sá ég að einhverjum í útlöndum hafði tekist að brjótast inn á kreditkortið mitt og stela þaðan 300 dollurum. Þetta gerðist án þess að ég hafi nýlega átt í erlendum viðskiptum. Ég hafði strax samband við Valitor, Var mér tilkynnt að kortið yrði tafarlaust aftengt og nýtt gefið út. Ég gæti sótt um endurgreiðslu á eyðublaði á vefsíðu fyrirtækisins sem ég gerði. Í dag var mér tilkynnt að fjárhæðin hefði verið „bakfærð“ á reikning minn.

Ég hef ekki fengið neina skýringu á hvernig þjófinum tókst að brjótast í gegnum öryggiskerfi Valitors. Á því eru vafalaust tæknilegar skýringar sem ég skil ekki þótt afleiðingin blasi við mér. Skaði minn hefur verið bættur og þegar ég fæ nýja kortið get ég snúið mér að endurnýjun viðskiptasambanda minna við erlenda og innlenda aðila sem ég greiði með kortinu. 

Almennt séð eru innbrot af þessu tagi líklega mun algengari en sagt er frá  opinberlega. Fyrirtækjum er ekki ljúft að skýrt sé frá því að tölvuþrjótum takist að rjúfa öryggiskerfi þeirra og varnarviðbúnað. Þau óttast réttilega að tíðar fréttir af slíkum innbrotum dragi úr áhuga á að eiga viðskipti við þau.

Fyrir nokkrum árum voru fréttir af búðarhnupli algengar. Þá var þess oft einnig getið að lögreglan setti slík mál ekki í forgang. Nú berast slíkar fréttir ekki lengur. Í verslunum eru öryggisverðir og verslanir hafa reiknað kostnað sinn af búðarhnupli inn í vöruverðið þannig að heiðarlegir viðskiptavinir greiða fyrir rýrnunina – aukist þjófnaðir í verslunum hækkar verð vörunnar sem þar er seld.

Á dagbók lögreglunnar í Borgarnesi þriðjudaginn 20. september má lesa: Þrír menn af erlendum uppruna voru stöðvaðir í Borgarnesi að kvöldi sl. laugardags, eftir að sést hafði til þeirra í þjófnaðarleiðangri á Snæfellsnesi.“ Fréttin um þetta kom mér í huga þegar ég lenti í klóm netþjófsins. Vonandi kemst hann undir manna hendur eins og þeir sem gerðir eru út hingað í þjófnaðarleiðangra, til dæmis frá Hvíta Rússlandi.