6.9.2016 16:45

Þriðjudagur 06. 09. 16

Í sumum málum er þingmönnum um megn að taka mark á staðreyndum e Þetta á ekki síst við þegar rætt er fjárhagsmálefni útgerðarfyrirtækja. Mætti ætla að markmið vinstri flokkanna væri að koma fyrirtækjunum á vonarvöl vegna ákvarðana um kvóta og fiskveiðistjórnarkerfi sem kom til sögunnar fyrir 33 árum.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, áréttaði á alþingi mánudaginn 5. september að sér fyndust ákvarðanir um kaupauka hjá slitabúum bankanna hafa yfirbragð sjálftöku vegna þess hvernig þessi fyrirtæki hefðu komið til sögunnar. Hluthafahópurinn væri ekki hópur sem hefði fjárfest í þessum félögum heldur hefði hann endað uppi sem hluthafahópur eftir nauðarsamningagerð. Ætla mætti að það væru mörg þúsund á bak við þessi félög en „ofboðslega þröngur píramídi“ tæki ákvörðun um þessa hluti efst í hluthafahópnum. Þar með kæmi þetta yfirbragð sjálftöku.

Ráðherrann sagði þetta þegar hann svaraði Björt Ólafsdóttur, þingmanni Bjartrar framtíðar, sem sagði síðan í þingræðu að auðvitað væri „það sjálftaka að greiða sér arð“ alveg eins og kaupaukinn væri sjálftaka. 

Í svarræðu við þessum ummælum sagðist Bjarni ekki geta fallist á að það væri „sjálftaka þegar menn greiða sér arð í atvinnustarfsemi“. Það væri ekki í nokkru samhengi við umræðuna um kaupaukana.

Þá mótmælti hann því sem kom fram hjá Björt að ríkisstjórnin hefði „lækkað veiðigjöldin svo mjög að það muni milljörðum og að mismunurinn hafi verið greiddur út í arð“. Það væri alrangt. Ríkisstjórnin hefði tekið á annan tug ef ekki á þriðja tug milljarða í veiðigjöld umfram það sem gert hefði verið á síðasta kjörtímabili. Engin ríkisstjórn nokkru sinni hefði innheimt jafnhá veiðigjöld í ríkiskassann og gert hefði verið á þessu kjörtímabili.

Þá hrópaði Björt Ólafsdóttir: „Þetta er bull!“  Bjarni sagðist ætla að senda Björt yfirlit yfir þessar greiðslur þannig að hún gæti dregið til baka orð sín um að þetta væri bull. Þetta væri staðreynd.

Vonandi fær Björt þessi gögn í hendur. Ástæða er þó til að óttast að viðleitni ráðherrans til að beina umræðum um veiðileyfagjöldin inn á braut staðreyndanna beri ekki árangur. Of margir stjórnmálamenn og flokkar hafa fest sig í vísvitandi rangfærslum um útgerðina og kvótann til að eitt minnisblað með tölum verði þeim til bjargar.