2.9.2016 11:30

Föstudagur 02. 09. 16

„Mikil umræða hefur verið síðustu daga um framlög til skólamála í Reykjavíkurborg og hafa stjórnendur grunnskóla og leikskóla ályktað um niðurskurð undangenginna ára. Af því tilefni er mikilvægt að halda til haga nokkrum staðreyndum.“

Á þessum orðum hefst stutt grein í Fréttablaðinu í dag þar sem samfylkingarmaðurinn og borgarfulltrúinn Skúli Helgason, formaður skólamálaráðs borgarinnar, reynir að klóra í bakkann vegna ófremdarástandsins sem skapast hefur í leikskólum og grunnskólum borgarinnar.

Nú er svo komið að stjórnendur leikskóla segja starf þeirra komið út fyrir öll skynsamleg fjárhagsleg þolmörk. Stjórnendur og kennarar í grunnskólum kjósa að leita annað og í betra starfsumhverfi til að vinna að menntun barna. Er það svo að stjórnendur skólanna hafi „ályktað um niðurskurð undangenginna ára“? Hafa þeir ekki einmitt ályktað um stöðuna eins og hún er núna? Að óbærilegt sé að borgaryfirvöld sem stæra sig af, eins og Skúli gerir i grein sinni, auknum framlögum til skólamála skuli með hinni hendinni þrengja svo fjárhagslega að skólunum að þeir séu komnir að fótum fram.

Það er dæmigert fyrir almennan málflutning samfylkingarmanna að ræða ekki hlutina eins og þeir eru heldur láta eins og málið snúist um eitthvað annað. Af grein Skúla mætti halda að Reykjavíkurborg hefði gert eitthvað betur við starfsfólk í leikskólum og grunnskólum borgarinnar en önnur sveitarfélög hafa gert. Svo er ekki. Launasamningar kennara eru hinir sömu um land allt, neyðarkallið vegna fjárskorts er þó hæst í Reykjavík og borgin missir starfsmenn úr skólum til nágrannasveitarfélaga af því að þau bjóða betra starfsumhverfi.

„Þá er rétt að benda á að samkvæmt gögnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga voru framlög á hvern grunnskólanema árið 2014 næsthæst í Reykjavík af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Skúli.  Nú er að vísu árið 2016 en á að skilja orð hans á þann veg að það séu skólastjórnendur í Reykjavík sem fari verr með fé en þeir sem starfa í nágrenni höfuðborgarinnar?

Afneitun einkennir orð Dags B. Eggertssonar borgarstjóra þegar hann ræðir fjármál Reykjavíkurborgar. Sömu sögu er að segja þegar formaður skólaráðs ræðir fjárhag leikskóla og grunnskóla. Grein Skúla Helgasonar ber með sér að vinstri meirihlutinn í Reykjavík hafi engin úrræði til að bjarga skólunum úr fjármálakreppunni – það hefur einfaldlega orðið hrun í Reykjavík í miðju góðærinu.