19.8.2016 12:00

Föstudagur 19. 08. 16

Eitt af þeim leikbrögðum sem menn nota þegar þeir komast í rökþrot er að segja: Já, en þetta eru gamlar fréttir. 

Þeir sem taka að sér að verja ákvörðun Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins um að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um mikilvæga ríkisstjórnartillögu gera það með þessum hætti. Framsóknarflokkurinn hafi áður brosað til vinstri. Eygló hafi jafnan haft þennan fyrirvara vegna útgjalda úr ríkissjóði, þau yrðu að vera meiri til ráðuneytis hennar. Það hafi áður gerst að ráðherrar styðji ekki stjórnarfrumvörp.

Allt er þetta satt og rétt en dugar ekki sem vörn fyrir Eygló. Það verður að skoða hvert mál fyrir sig. 

Í gær greiddu þingmenn í fyrsta sinn atkvæði um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2017 til 2021 í samræmi við lög nr. 123/2015, um opinber fjármál. Áætlunin er reist á fyrirliggjandi fjármálastefnu fyrir sama tímabil og skilyrðum hennar. Þetta er því mikilvægt stefnumótandi skjal sem ítrekað hefur verið rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna. 

Allt sem snertir fjárlagatillögur og fjármálastefnu ríkisstjórnar er þess eðlis að krefjast verður meiri samheldni ráðherra um þau mál en önnur pólitísk álitamál. Að rjúfa samstöðu ríkisstjórnar um fjármál ríkisins felur í sér yfirlýsingu um ágreining af því tagi að undrun vekur að ráðherra kjósi að sitja áfram í ríkisstjórninni eða forsætisráðherra taki ekki af skarið og leysi hann frá störfum. 

Í þessu tilviki er einnig um fyrstu atkvæðagreiðslu um lögbundna tillögu af hálfu ríkisstjórnarinnar að ræða. Að gefa það fordæmi að ráðherra geti átölulaust setið hjá við atkvæðagreiðsluna vegna óánægju með að ráðuneyti hans fái ekki nóg fyrir sig er ekki aðeins varhugavert heldur grefur undan markmiðum laganna sem standa að baki tillögunni og í raun tillögunni sjálfri.

Hér á þessum stað var á það bent áður en stjórnarhremmingarnar urðu í byrjun apríl að skynsamlegt væri að rjúfa þing og kjósa í haust vegna augljósra bresta í stjórnarsamstarfinu. Þessir brestir hafa nú birst skýrar en áður. Fram hjá þeim verður ekki litið enda verður nýtt þing kosið í haust. 


Vilji menn túlka framgöngu Eyglóar á þann veg að framsóknarmenn brosi nú til vinstri segir það kjósendum á hverju þeir eiga von kjósi þeir Framsóknarflokkinn: ábyrgðarleysi í ríkisfjármálum og yfirboðum í ríkisútgjöldum.