10.8.2016 15:30

Miðvikudagur 10. 08. 16

Í dag ræddi ég við Teit Björn Einarsson, aðstoðarmann fjármálaráðherra, í þætti mínum á ÍNN. Verður hann frumsýndur kl. 20.00 í kvöld á rás 20.00 og síðan sýndur á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun.

Í upphafi brá ég upp glæru með þessum hagtölum sem sýna góða stöðu þjóðarbúsins um þessar mundir:

Hagvöxtur  4%  árið 2015. Hann var 1,8% á Norðurlöndunum og 2,1% í öllum OECD ríkjunum.

Atvinnuleysi var 2,9% árið 2015 miðað við 8% árið 2009. Í júní 2016 mældist atvinnuleysi 2%.

Launavísitala hækkaði um 12,5% milli ára og kaupmáttur, það sem kaupa má fyrir launin, hækkaði um 10,7%.

Verðbólga var 1,6% í júní.

Skuldir árið 2008 námu heildarskuldir fyrirtækja og heimila 357% af landsframleiðslu en nú eru skuldir þessara aðila helmingi lægri 177%.

Heildarskuldir hins opinbera voru 69% af landsframleiðslu í fyrra, samanborið við 95% árið 2011. 

Erlend staða þjóðarbúsins hefur batnað mikið. Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.215 ma.kr. í lok fyrsta ársfjórðungs 2016 en skuldir 4.347 ma.kr. Staðan var því -6% af landsframleiðslu í lok fyrsta ársfjórðungs 2016 en hún var hins vegar -131% árið 2008. 

Þegar staðan er þessi þarf engan að undra að stjórnarandstaðan kjósi að ræða eitthvað annað en efnahagsmál og stofni þess í stað til rifrildis um kjördag. Í lýðræðisríki þar sem þingrofsréttur er hluti stjórnlaga þarf skýr málefnaleg rök til að berjast gegn því að þjóðinni gefist kostur á að ganga til kosninga. Hér var það ákveðið í apríl 2016 eftir að forsætisráðherrann sagði af sér og boðaði að hann hefði þá þegar viljað rjúfa þing. Að snúa ákvörðun um þingrof í rifrildi um dagsetningu kosninga er stórundarlegt. Ákvörðunin um kjördag er á valdi forsætisráðherra.

Alvöru stjórnmálabarátta á að snúast um hvort haldið skuli áfram á þeirri braut sem skilað hefur þjóðarbúinu góðum árangri eða hvort menn vilji fá yfir sig sundurleita vinstri stjórn sem sameinast um það eitt að hækka skatta.

Heilbrigð verðmætasköpun fyrir frumkvæði einstaklinga er forsenda velferðar og heilbrigðs velferðarkerfis. Ríkissjóður er eitt tækjanna til að skapa sóknarfærin enda sé hann ekki ofhlaðinn skuldaböggum. Nú hefur tekist að létta þessum böggum af ríkissjóði á undraskömmum tíma. Sé illa á málum haldið er einnig unnt að sliga ríkissjóð á undraskömmum tíma.