9.8.2016 11:30

Þriðjudagur 09. 08. 16

Málefnafátækt stjórnarandstöðunnar birtist skýrt í síbyljunni um að alþingi verði óstarfhæft nema sagt sé hvaða dag verði kosið í haust. Ætla mætti að það væri með ráðum gert hjá forystumönnum stjórnarflokkanna að gefa ekki upp daginn til að draga fram innantóman málflutning stjórnarandstöðunnar. Hótanir hennar um skemmdarverk á þingi hafa síðan orðið vatn á myllu þeirra sem vilja ekki kosningar í haust og tala eins og stjórnarháttum sé ógnað sé kosið í lok október eða byrjun nóvember frekar en í apríl.

Í sjálfu sér er skiljanlegt að stjórnarandstaðan kjósi að tala um dagsetningar í stað málefna. Leggur fréttastofa ríkisútvarpsins henni lið við að halda lífi í þeim umræðum. Á mbl.is hafa hins vegar birst annars konar og forvitnilegri fréttir af stjórnarandstöðunni undanfarið. Hún er klofin um flest mál þegar grannt er skoðað.

Innan Samfylkingarinnar er ágreiningur milli Oddnýjar Harðardóttur formanns og Össurar Skarphéðinssonar, fyrrv. formanns, um hvort munur sé á pírötum og samfylkingarfólki. Össur telur að svo sé ekki. Oddný segir pírata ekki jafnaðarmenn. Birgitta spyr á mbl.is af þessu tilefni mánudaginn 8. ágúst: „Hvað er að vera jafnaðarmaður í dag? Hún [Oddný] hefur kannski ekki verið að kynna sér hvað við stöndum fyrir.“ Hvernig ber að skilja þessi orð, að píratar séu jafnaðarmenn?

Birgitta segist hins vegar ekki vita hvað Samfylkingin geri komist hún í ríkisstjórn. Stóri munurinn á pírötum og Samfylkingu sé að píratar hafi ekki ákveðið hvort þeir séu hlynntir aðild að ESB eða ekki. Samfylkingin sé „kannski eini flokkurinn sem er með afgerandi stefnu að ganga í ESB. Það er mjög stór munur því öll þeirra stefna hefur alltaf mótast af því að við göngum í ESB. Það hefur verið eina lausnin sem þau hafa við öllum vandamálum á Íslandi. Það er rosalega stór munur myndi ég segja.“

Í viðtalinu við mbl.is mildar Birgitta fyrri kröfu sina og skilyrði um 9 mánaða kjörtímabil að loknum næstu þingkosningum, krafan sé „ekki meitluð í stein“. Að svo mæltu segir hún svo að VG og Samfylking leggist svona fast gegn kröfunni um 9 mánuði til „að reyna að skapa sér sterkari stöðu í samningaviðræðum. Það er oft gert,“ segir Birgitta að lokum. Birgitta vill að stjórnarsáttmáli sé gerður fyrir kosningar, kjósendum til leiðbeiningar.