28.7.2016 12:00

Fimmtudagur 28. 07. 16

Hér var vakið máls á því í gær að Birgitta Jónsdóttir (pírati), Oddný Harðardóttir (Samfylkingu) og Katrín Jakobsdóttir (VG) hefðu sameiginlega sagt að þær vildu ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn að loknum kosningum. Minnt var á að Birgitta vildi aðeins 9 mánaða kjörtímabil næst til að setja nýja stjórnarskrá og kollvarpa stjórnarráðinu.

Glöggur lesandi sendi mér bréf í tilefni af þessu þar sem segir:

„ Eitt skilyrðið sem Birgitta hefur oft nefnt er: Píratar setjast ekki í ríkisstjórn nema enginn þingmaður verði ráðherra, sama úr hvaða samstarfsflokki þingmaðurinn er. Enginn sé hvorutveggja þingmaður og ráðherra. Blaða/fréttamenn spyrja formenn væntanlegra samstarfsflokka aldrei útí þessi skilyrði Birgittu.“

Þetta er réttmæt ábending sem dregur enn athygli að hve innantómar spurningar fréttamanna til Birgittu og vegna hennar eru. Ef þeir telja ekkert að marka af því sem hún hefur áður sagt hvers vegna eyða þeir sínum tíma og annarra í samtöl við hana?

Í framhaldi af útilokunaryfirlýsingu flokksleiðtoganna þriggja skrifar Svandís Svavarsdóttir, formaður þingflokks VG, grein i Fréttablaðið í dag þar sem segir meðal annars:

„Réttlátt skattkerfi er hornsteinn velferðarsamfélaga. Þeir sem nóg hafa og meira en nóg borga meira til samneyslunnar sem er hugsuð til þess að jafna kjör og tryggja velferð allra án tillits til efnahags. Núverandi stjórnvöld hafa ítrekað lýst afstöðu sinni gegn auðlegðarskatti og þrepaskiptu skattkerfi að norrænni fyrirmynd.“

Þarna er áréttað að komist þessir þrír vinstri flokkar til valda að loknum kosningum verði aftur tekið til við að fikta við skattkerfið í anda sósíalisma og stöðnunar. 

Í nýjasta hefti Þjóðmála er vitnað í Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumann efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, sem bendir á að skatttekjur hér séu nú háar bæði í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Skattbyrði sé nánast hvergi meiri meðal þróaðra ríkja. Aukin skattbyrði hafi að meginþunga lagst á fyrirtæki og sé nú verulega fyrir ofan meðaltal OECD-ríkja. Umskiptin hafi orðið mikil, skattbyrðin hafi verið einn lægst á Íslandi árið 2003. Þá segir í greininni eftir Óla Björn Kárason ritstjóra:

„Skattastefnan á Íslandi frá hruni gengur þvert á stefnu margra annarra þjóða sem á undanförnum árum hafa lagt áherslu á að bæta samkeppnisumhverfi atvinnulífsins og fremur leitast við að lækka skatta en að hækka þá.“

Þessa staðreynd hafa talsmenn sósíalisma á Íslandi að engu og vilja enn herða skattatökin.