27.7.2016 11:00

Miðvikudagur 27. 07. 16

Það er upplýsandi fyrir kjósendur að þeir sem koma fram sem forystumenn Samfylkingar, VG og Pírata-flokksins segjast útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn að kosningum loknum. Í atkvæði sem greidd verða þessum flokkum felst ávísun á skattahækkanir, skuldasöfnun ríkissjóðs og ofstjórn á sviði atvinnumála. Ávísun á stöðvun og siðan afturför. Þessu kynntist þjóðin 2009 til 2013 og þessu hafa nágrannaþjóðir kynnst.

Úr því að flokkarnir þrír hafa ákveðið að stíga þetta skref hljóta fjölmiðlamenn næst að spyrja talsmenn þeirra hvort þeir ætli ekki að framkvæma það sem Birgitta Jónsdóttir, talsmaður stærsta flokksins, pírata, hefur boðað: að gera stjórnarsáttmála fyrir kosningar um breytingar á stjórnarskrá, uppstokkun á stjórnarráðinu og kosningar að nýju eftir níu mánuði.

Oft er talað um gullfiskaminni almennings það er þó enn meira áberandi hjá fjölmiðlamönnum sem eiga að reisa vörður svo að almenningur geti áttað sig á hvert stefnir. Hvers vegna spyrja þeir Birgittu Jónsdóttur til dæmis aldrei um samhengið í því sem hún segir? Er það vegna þess að þeir telja hana í raun marklausa? Eða vilja þeir hlífa henni við flóði eigin yfirlýsinga? Og hvað með Oddnýju og Katrínu Jakobs, ætla þær í samstarf við Birgittu um framkvæmd stefnu hennar?

Ákveði forsætisráðherrar annars staðar að rjúfa þing og efna til kosninga gera þeir það án þess að ráðgast fyrst við stjórnarandstöðuna. Nægir að líta til Danmerkur og Bretlands í því sambandi. 

Nú hefur verið ákveðið að boða til kosninga í haust. Vikum og mánuðum saman hefur stjórnarandstaðan hins vegar vælt yfir því að hún viti ekki hvaða dag í haust. Má skilja sjálfa Birgittu á þann veg að af fjölskylduástæðum þurfi hugsanlegir frambjóðendur að vita þetta! Haft er í hótunum um að rætt verði endalaust um fundarstjórn forseta alþingis eða störf þingsins fái píratar ekki að vita um kjördag. Ávallt viðbúin! er greinilega ekki eitt af slagorðum pírata.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson útilokar ekki að hann verði ráðherra að nýju, nú þegar hann hefur ákveðið að ganga til virkrar stjórnmálaþátttöku aftur. Á þá kapallinn innan Framsóknarflokksins frá 7. apríl 2016 að ganga til baka? Þegar Sigmundur Davíð boðaði þingrof 5. apríl 2016 sagði Karl Garðarsson, þingmaður framsóknar: „Staðan núna er mjög óljós og við þurfum að fá skýringar frá Sigmundi um hvað býr að baki hjá honum.“ Hvað skyldi Karl segja núna?