24.7.2016 11:00

Sunnudagur 24. 07. 16

Á sínum tíma lá ekki í augum uppi að verða við óskum og áhuga þeirra sem vildu koma á fót einkareknum háskólum við hlið Háskóla Íslands. Að breyttum lögum og gerðum samningum var skrefið hins vegar stigið og bylting varð í háskólastarfi á Íslandi án þess að Háskóli Íslands liði undir lok.

Sagan að baki Listaháskóla Íslands er löng. Árum saman var rætt um að ríkið breytti einstökum skólum á framhaldsskólastigi í háskóla án þess að það tækist. Í tíð Ólafs G. Einarssonar sem menntamálaráðherra á fyrri hluta tíunda áratugarins var enn sett á laggirnar nefnd til að ræða um leið til að koma á fót listaháskóla. Hún lagði til að um einkarekinn skóla yrði að ræða og var sú leið farin. Undir farsælli stjórn Hjálmars H. Ragnarssonar rektors og Stefáns Péturs Eggertssonar verkfræðings á stóli stjórnarformanns hóf skólinn starfsemi og náði sér fljótt á strik enda ríkti jafnan jákvæðni og bjartsýni hjá þeim sem stóðu í brúnni. Því miður tókst þeim félögum ekki að koma starfsemi skólans undir eitt þak vegna hrunsins.

Vissulega voru fordómar í garð einkarekstrar á háskólum. Hann hefur hins vegar staðið þá af sér og eina vinstri ríkisstjórn að auki. Hún lagði ekki til atlögu við þennan einkarekstur.

Þetta er rifjað upp hér og nú vegna ramakveinsins sem upp er rekið af sumum þegar enn einu sinni er reifuð hugmynd um að útlendingar hefji hér rekstur einka-sjúkrahúss. Ef af yrði væri sá rekstur annars konar en rekstur einkaháskólanna að því leyti að ríkið er í raun fjárhagslegur bakhjarl háskólanna með greiðslu á umsaminni fjárhæð að baki hvers nemanda sem greiðir skólagjöld að auki. Talsmenn nýja sjúkrahússins í Mosfellsbæ ætla ekki að semja við Sjúkratryggingar ríkisins til að skapa fjárhagslegan grundvöll starfseminnar.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur rakið þræði vegna ákvarðana um Mosfellsbæjarhúsið, talsmaður þess segir að ekki verði rætt við landlækni um starfsleyfi fyrr en eftir þrjú ár þegar húsið verði risið, hann verði að geta kynnt sér aðstæður. Fréttastofan hefur fundið efasemdarrödd hjá samfylkingarkonunni Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, formanni velferðarnefndar alþingi. Hún lét meðal annars þessi ummæli falla: „Þetta er stór samfélagspólitísk spurning og þar er það ekki bara hreinn lagabókstafur sem ræður..“  Það er sem sagt geðþótti en ekki lögin sem eiga að ráða í þessu máli.