20.7.2016 14:40

Miðvikudagur 20. 07. 16

Um hvað snýst mál sem nú setur mikinn svip á fréttir ríkisútvarpsins og varð til þess að dagskrárgerðarmaður í morgunþætti rásar 2 fór með svo ósmekkleg ummæli að hún baðst afsökunar á þeim? Jú, lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur beint því til viðbragðsaðila á þjóðhátíð Vestmannaeyjum að þeir veiti fjölmiðlum engar upplýsingar um kynferðisbrot sem kann að reka á fjörur þeirra á þjóðhátíð 2016. 

Lögreglustjórinn sendi svipuð tilmæli fyrir ári. Sumir viðbragðsaðilar virða þau aðrir ekki. Tilgangurinn er að grunur verði ekki opinberlega staðfestur af opinberum eða hálf-opinberum aðilum. Meginrökin eru umhyggja fyrir þolandanum. Ætla má vegna viðbragðanna að í þessum tilmælum felist eitthvert fréttabann af þjóðhátíð. Svo er auðvitað ekki. Fjölmiðlar geta hins vegar ekki vitnað í dagbók lögreglunnar í Vestmannaeyjum í leit að fréttum um þetta efni heldur verði að treysta á aðrar heimildir.

Fjölmiðlar sem hafa áhuga á þessum þætti þjóðhátíðarinnar á meðan hún stendur verða að leggja meira á sig til að afla frétta um hann en að hringja í lögregluna. 

Theresa May, nýr forsætisráðherra Breta, sat í fyrsta sinn fyrir svörum í nýju embætti sínu í neðri deild breska þingsins í dag. Sé litið á þennan spurningatíma sem einvígi milli forsætisráðherrans og leiðtoga stjórnarandstöðunnar er augljóst að May gjörsigraði Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins. Staða hans innan eigin þingflokks er ömurleg en hann heldur í völdin í krafti þess að hann hafi sigrað í almennri kosningu félaga í Verkamannaflokknum. Vill Corbyn takast á við andstæðing sinn á þeim átakavelli.

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins, sat fyrir svörum á rás 2 ríkisútvarpsins í gær og veittist að Sjálfstæðisflokknum. Hún sagði m.a.:

„Það hafa verið mikil átök. Stundum jafnvel slagsmál við samstarfsflokkinn um framlög inn í velferðarkerfið.“

Vigdís Hauksdóttir, flokkssystir Eyglóar og formaður fjárlaganefndar alþingis, mótmælir þessum orðum og segir við Kjarnann í dag að samstarfið við sjálfstæðismenn í fjárlaganefnd, þar sem pólitíkin ræður meðferð fjárlagafrumvarpsins, hafi verið „afar gott“.

Eygló er í vinstri armi Framsóknarflokksins. Þar hafa menn jafnan horn í síðu Sjálfstæðisflokksins, studdu t. d. þess vegna minnihlutastjórn Jóhönnu 1. febrúar 2009. Að standa gegn lækkun skulda ríkissjóðs vegna varðstöðu um útgjöld til félagsmála sýnir að Eygló er á röngu vinstra róli.