14.7.2016 13:00

Fimmtudagur 14. 07. 16

Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar fjárfestingarfélags, er viðmælandi Stefáns Einars Stefánsson í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag. Um stöðuna á bankamarkaði segir Hannes Frímann:

„Það kæmi mér alls ekki á óvart þó staðan á bankamarkaði yrði eitt af kosningamálunum í alþingiskosningunum í haust. Það hefur mikil umræða verið uppi um uppbyggingu fjármálamarkaðarins og m.a. umræða um aðskilnað fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi og það kæmi mér ekki á óvart þó sú umræða leiddi til einhvers konar uppstokkunar á markaðnum nú þegar ríkið heldur á stórum hluta fjármálakerfisins. Menn sjá auðvitað ákveðin tækifæri í því að gera breytingar á þessu sviði þegar um 70% af kerfinu er í höndum ríkisins. Núna heldur ríkið á nær öllu hlutafé Landsbankans, Íslandsbanka í heild sinni, talsverðum hlut í Arion banka og svo má ekki gleyma Íbúðalánasjóði í þessu samhengi heldur.[...]

Það er mjög óeðlilegt ef ríkið ætlar að eiga í tveimur eða fleiri fyrirtækjum á samkeppnismarkaði og nauðsynlegt að það sé gert að forgangsmáli að losa um eignarhald ríksins á a.m.k. öðrum ríkisbankanum sem fyrst. Það er í sjálfu sér ekki ólíklegt eða óeðlilegt að ríkið haldi kjölfestuhlut í einum af bönkunum til lengri tíma en þá er mikilvægt að eigendastefna ríksins sé mjög skýr“

Allt er þetta rétt og mælt af skynsemi. Ein meginrökin fyrir að efnt sé til kosninga í haust er að flokkarnir geri þjóðinni grein fyrir hvaða stefnu þeir hafa í þeim málum sem þarna er lýst. Þetta er ný staða og á henni ber að taka á opin, gagnsæjan hátt með skýru umboði frá kjósendum.

Því miður leiddi einkavæðing bankanna fyrir hrun til þess að bankarnir lentu í höndum manna sem kunnu sér ekki nægilegt hóf með hroðalegum afleiðingum fyrir þjóðina og þá. Leyni-einkavæðing Steingríms J. Sigfússonar er víti til að varast. Allt hefur þetta leitt til djúpstæðrar vantrúar almennings á að pólitískir forystumenn þjóðarinnar hafi þekkingu, vit og burði til að marka og framkvæma stefnu um leið frá þessum mikla eignarhlut ríkisins í fjármálastofnunum.

Undir forystu efnahags- og fjármálaráðherra hafa markviss skref verið stigin á mótaðri stefnu úr fjármagnshöftunum. Að upphafsskrefunum komu erlendir sérfræðingar. Þá þarf einnig að kalla til vegna losunar á ríkiseignarhaldinu. Fyrst þarf þó að móta stefnuna og kynna hana almenningi fyrir kosningar.