10.7.2016 16:30

Sunnudagur 10. 07. 16

Umræður um formennsku í Framsóknarflokknum halda áfram. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flokksformaður tilkynnti þingflokki framsóknarmanna 5. apríl, tæpum tveimur sólarhringum eftir útsendingu á alræmdum Kastljós-þætti um Panama-skjölin að hann segði af sér sem forsætisráðherra.

Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, varð forsætisráðherra en sagðist styðja Sigmund Davíð sem flokksformann.

Lilja D. Alfreðsdóttir, sérfræðingur í seðlabankanum, kom þaðan í stól utanríkisráðherra. Hún hefur ekki ákveðið hvort hún haslar sér völl í stjórnmálum. Tækifærið virðist gott til þess þar sem þungavigtarfólk framsóknarmanna í Reykjavík hefur boðað brottför af þingi. Fylgi Framsóknarflokksins mælist hins vegar lítið.

Lilja styður Sigmund Davíð sem formann enda náinn samstarfsmaður hans.

Ef marka má orð Sigmundar Davíðs við afsögn hans sem forsætisráðherra kæmi á óvart að hann legði það á fjölskyldu sína að sækjast eftir flokksformennsku á auka-flokksþingi fyrir kosningar í haust.

Munu þau Sigurður Ingi og Lilja takast á um að leiða Framsóknarflokkinn eftir brottför Sigmundar Davíðs?