3.7.2016 11:30

Sunnudagur 03. 07. 16

Fyrir áhugamenn um stjórnmál er álíka spennandi að fylgjast með sjónvarpsfréttum um stjórnmálaástandið í Bretlandi og fyrir áhugamenn um knattspyrnu að fylgjast með EM-2016. 

Í kvöld munu þó allar fréttir frá Bretlandi víkja fyrir leik Íslendinga og Frakka í París. Undraverður árangur íslenska karlalandsliðsins setur mikinn svip á íþróttafréttir um heim allan. Í Bretlandi vakti mikla gleði sl. föstudag þegar lið Wales sigraði Belga i spennandi leik í Lille. Breskir íþróttafréttamenn láta hins vegar Íslendinga oft getið þegar þeir bera lof á sigur Walesbúa, segja lið beggja hafa komið mest á óvart á EM-2016 vegna glæsilegs árangurs.

Stjórnmálaumræður hér á landi eru svipur hjá sjón miðað við það sem er í Bretlandi. Stafar það af litlum áhuga í fjölmiðlum og tregðu stjórnmálamanna til að ræða innri mál flokka sinna í fjölmiðlum. Í breskum fjölmiðlum tíðkast ekki á sama hátt og hér að leita til einhverra fræðimanna í háskólum til að fá álit þeirra á stöðu stjórnmála heldur er talað við stjórnmálamennina sjálfa og kallað á fjölmiðlamenn til að brjóta mál til mergjar.

Þegar tekist er á um leiðtogaefni í flokkum eins og í Íhaldsflokknum núna koma frambjóðendur fram, kynna ákvörðun sína um framboð og svara spurningum síðan leita fjölmiðlamenn uppi stuðningsmenn þeirra og ræða við þá. Dálkahöfundar blaðanna taka einnig afstöðu ti einstakra frambjóðenda og hika ekki við að berjast fyrir þeim. Umræðurnar eru opnar, harðar og í mörgu tilliti vægðarlausar. 

Íhaldsmenn takast á um nýjan leiðtoga fyrir opnum tjöldum. Innan Verkamannaflokksins tala menn hins vegar hreint út um tilvistarvanda flokksins ef Jeremy Corbyn flokksleiðtogi segir ekki af sér. Hann situr sem fastast og segist bíða eftir að skýrsla um Írak-stríðið komi út miðvikudaginn 6. júlí. Ætlar hann örugglega að reyna að ná sér niður á Tony Blair, forvera sínum í Verkamannaflokknum, sem var forsætisráðherra vorið 2003 þegar Írak-stríðið hófst.

Íslenskir stjórnmálafræðingar og fjölmiðlamenn segja stundum að íslenskir stjórnmálamenn hagi sér ekki eins og starfsbræður þeirra erlendis. Auðvelt er að færa rök fyrir að þessi munur sé minni milli innlendra og erlendra stjórnmálamanna en milli þessi hvernig fræðingarnir og fjölmiðlamennirnir fjalla um stjórnmál og stjórnmálamenn.